Koepka var höggi frá mótsmetinu

Brooks Koepka með verðlaunagripinn.
Brooks Koepka með verðlaunagripinn. AFP

27 ára gamall Bandaríkjamaður, Brooks Koepka, stóð uppi sem sigurvegari á Opna bandaríska meistaramótinu í golfi, öðru risamóti ársins í íþróttinni. Koepka lauk leik á Erin Hills í Wisconsin á samtals 16 höggum undir pari og var aðeins höggi frá mótsmetinu.

Koepka hafði aldrei sigrað á risamóti en hafði nokkrum sinnum staðið sig ágætlega á þeim vettvangi og hafnaði til að mynda í 4. sæti á PGA-meistaramótinu í fyrra. Sjóndeildarhringurinn er breiðari hjá Koepka en mörgum bandarísku kylfingunum á PGA-mótaröðinni.

Hann spilaði á Áskorendamótaröð Evrópu, þeirri sem Birgir Leifur Hafþórsson leikur á, og síðar á Evrópumótaröðinni. Vann hann mót á þessum mótaröðum en einnig á japönsku mótaröðinni áður en hann fór inn á PGA-mótaröðina bandarísku.

Koepka gerðist atvinnumaður árið 2012 eftir að hafa leikið fyrir Florida State í háskólagolfinu. Með sigrinum fór hann upp í 10. sæti heimslistans. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert