Mcllroy var orðinn erfiður við kylfusvein

Rory McIlroy
Rory McIlroy AFP

Rory Mcllroy, einn besti kylfingur heims, sagði skilið við kylfu­svein sinn til níu ára, JP Fitz­ger­ald á dögunum og mun Harry Diamond, æskuvinur Mcllroy, bera kylfur hans á næstu tveimur mótum, annars vegar Bridgestone-mótinu og hins vegar PGA-meistaramótinu, síðasta risamóti ársins. Mcllroy segir að stundum verði menn að taka slíkar ákvarðanir og að hún sé best fyrir sig og Fitzgerald.

Mcllroy hefur unnið fjögur risamót með Ftizgerald sem kylfusvein, en hann hefur ekki unnið slíkt mót síðan árið 2014. „JP hefur verið stór hluti af lífi mínu undanfarin áratug, en ég var orðinn mjög erfiður við hann. Ég vildi ekki vera svoleiðis við neinn, en þessi leikur gerir manni það stundum," sagði Mcllroy. 

„Hann er enn einn af mínum nánustu vinum. Við byrjuðum að vinna saman árið 2008 og við eigum margar góðar minningar af golfvellinum. Við gætum unnið saman aftur í framtíðinni, en þetta var rétt ákvörðun á þessum tímapunkti. Ég rak Fitzgerald ekki, ég er einfaldlega að prófa nýja leið," sagði hann að lokum. 

Mcllroy hefur ekki tekið endanlega ákvörðun um hver verður kylfusveinn eftir mótin tvö.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert