Breytir öllu fyrir mig

Birgir Leifur með verðlaunagrip sinn.
Birgir Leifur með verðlaunagrip sinn. Ljósmynd/Áskorendamótaröð Evrópu.

„Þetta var minn dagur í dag. Þessi vika hefur verið frábær. Það er langt síðan að ég gerðist atvinnumaður. Ég hef nokkrum sinnum áður verið í toppbaráttunni en ég hef alltaf átt í basli á þriðja degi,“ sagði Birgir Leifur Hafþórsson eftir sinn fyrsta sigur á Áskorendamótaröð Evrópu. Sigurinn hjá Birgi kemur á hans 20. ári í atvinnumennsku en Birgir segir að hann hafi aldrei spilað betur.

Sjá frétt mbl.is: Birgir vann í Frakklandi

„Gærdagurinn var því stór dagur fyrir mig. Ég gerði vel og það að geta lyft þessum bikar er mjög skemmtilegt. 20 ár eru langur tími en nú er þetta allt þess virði,“ sagði Birgir sem sagðist hafa verið stressaður í gær en eftir að hafa sett í nokkur pútt varð hann hins vegar rólegri. Birgir segir enn fremur að hann hafi aldrei spilað jafn gott golf.

Efstu 15 kylfingarnir á peningalista mótaraðarinnar fá fullan keppnisrétt á Evrópumótaröðinni og segir Birgir að sigurinn í dag breyti öllu varðandi sína möguleika þar en hann er nú í 16. sæti og sannarlega farinn að banka á dyrnar.

„Þetta breytir öllu. Nú get ég skipulagt mig betur og komist inn á öll stærri mótin sem eru á næstunni. Þar getur allt gerst. En þetta snýst allt um það að komast í eitt af efstu 15 sætunum undir lok árs og nú er ég kominn með frábært tækifæri til þess að gera það,“ sagði Birgir Leifur sem var afskaplega ánægður með sigurinn, skiljanlega.

„Ég met þetta mikils þar sem ég er fyrsti sigurvegarinn á Áskorendamótaröðinni sem er frá Íslandi,“ sagði Birgir við heimasíðu Áskorendamótaraðarinnar.

„Ég er ekki sá yngsti en ég á þetta skilið fyrir þolinmæðina sem ég hef sýnt á þessum árum sem ég hef verið í þessu, hef komist í gegnum meiðsli og margt annað, þannig að ég er mjög ánægður,“ sagði Birgir Leifur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert