Ókeypis aðgangur og frír bjór á leikjum í Ribe

Forráðamenn Íslendingaliðsins Ribe HK róa nú lífróður fyrir tilverurétti liðsins í næst efstu deild danska handknattleiksins, en jafnt og þétt hefur sigið á ógæfuhliðina hjá liðinu eftir því sem lengra hefur liðið á keppnistímabilið.

Ribe er nú í þriðja neðsta sæti þegar fjórar umferðir eru eftir og að óbreyttu fellur það niður í 2. deild í vor nema það komist inn á sigurbraut á lokasprettinum. Á fimmtudaginn leikur Ribe næstsíðasta heimaleik sinn á keppnistímabilinu sem er við Horsens HK sem er í næsta sæti fyrir ofan Ribe-liðið.

Til þess að lokka sem flesta áhorfendur á leikinn hafa forráðamenn liðsins brugðið á það ráð að bjóða frían aðgang að leiknum og það sem meira er: ókeypis bjór af krana verður í boði síðasta hálftímann áður en flautað verður til leiks. Með þessu er vonast til að íbúar Ribe flykkist á leikinn og styðji við bakið á liði sínu en nokkuð hefur upp á það vantað í síðustu leikjum, að mati forráðamanna liðsins.

Ribe tapaði enn einum leiknum um helgina þegar það sótti Stoholm heim, 37:28. Hafsteinn Ingason og Tryggvi Haraldsson voru markahæstir í liði Ribe í leiknum, skoruðu 6 mörk hvor. Þriðji Íslendingurinn í liðinu, Karl Jóhann Gunnarsson, skoraði ekki en var í tvígang vísað af leikvelli í 2 mínútur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert