Aftur gerðu Íslendingar og Norðmenn jafntefli

Alexander Petersson í leiknum í Laugardalshöllinni í dag.
Alexander Petersson í leiknum í Laugardalshöllinni í dag. mbl.is/Eggert

Leikur Íslands og Noregs í undankeppni EM í handknattleik hófst í Laugardalshöll klukkan 16:00. Leikurinn var mikilvægur fyrir báðar þjóðir en tvö lið fara upp úr riðlinum í úrslitakeppnina í Austurríki. Íslendingar og Norðmenn eru því enn jafnir í efsta sætum riðilsins og Íslendingar þurfa því eitt stig í þeim tveimur leikjum sem eftur eru gegn Makedóníu og Eistlandi. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

LEIK LOKIÐ: Leiknum lauk með jafntefli 34:34 en Norðmenn jöfnuðu með glæsilegu marki úr vinstra horninu þegar örfáar sekúndur voru eftir.

58. mín: 34:32. Alexander hjó á hnútinn og skoraði fyrsta mark Íslands í langan tíma og Sigurbergur bætti við marki.

57. mín: 32:32. Ingimundur var að fá sína þriðju brottvísun og þar af leiðandi rautt spjald. Norðmenn misstu einnig mann af velli og því er jafnt í liðum.  

55. mín: 32:31. Forysta Íslands er nánast að engu orðin og enn fimm mínútur eftir af leiknum. Guðmundur þjálfari sér þann kost vænstan að taka leikhlé og skipuleggja leik liðsins.  

54. mín: 32:30 Norðmenn hafa ekki lagt árar í bát og Mamelund er kominn með 11 mörk hjá þeim. Tíminn fer þó að verða naumur hjá þeim og nú er hvert mark afar dýrmætt hjá Íslendingum.

50. mín: 30:25. Vænkast nú hagur Íslands eftir frábæran kafla þar sem íslensku leikmennirnir breyttu stöðunni úr 26:25 í 30:25. 

45. mín: 26:24. Leikurinn er í járnum sem stendur. Norðmenn hafa minnkað muninn í tvö mörk og virðast vera að ganga á lagið.  

40. mín: 24:20. Íslendingum hefur tekist enn sem komið er að halda fjögurra marka forskoti sínu. Alexander hefur verið drjúgur í síðari hálfleik og hefur skorað sjö mörk alls í leiknum. 

35. mín: 20:16. Íslendingar byrja síðari hálfleikinn ágætlega en eru þó ekki búnir að hrista Norðmennina af sér. Sigurbergur Sveinsson er orðinn markahæstur en hann er kominn með fimm mörk.

HÁLFLEIKUR: Ísland hefur yfir að loknum fyrri hálfleik 17:13.  Fyrirliðinn Guðjón Valur tók góða rispu undir lok fyrri hálfleiks og er kominn með þrjú mörk. Íslenska liðið keyrði hratt á Norðmennina seinni hluta fyrri hálfleiks enda varnarleikurinn ágætur hjá Norðmönnum þegar þeir ná að stilla upp í vörnina. Þetta hefur virkað vel og Ísland náði fimm marka forskoti 16:11. Heiðmar er markahæstur með 4 mörk og Björgvin hefur varið 12 skot í markinu.

25. mín: 12:9.  Útlitið er ágætt hjá íslenska liðinu. Guðjón Valur var að skora sitt fyrsta mark í leiknum og það kom úr vítakasti. Björgvin er í stuði og er búinn að verja 11 skot í markinu.

23. mín: 10:8. Ingimundur var rekinn út af í annað skipti og þarf að passa sig. Dómarar leiksins hafa lagt einkennilega línu og Íslendingar gætu lent í vandræðum með brottvísanna.  

20. mín: 8:7. Íslendingar hafa enn frumkvæðið. Ingimundur fékk brottvísun fyrir litlar sakir og Íslendingar hafa því verið með menn í kælingu í 6 mínútur af fyrstu 20. 

17. mín: 7:5. Heiðmar hefur farið á kostum og er kominn með fjögur mörk. Björgvin byrjar ágætlega í markinu og frammistaða hans lofar góðu. Norðmenn spila sterkan varnarleik þegar þeir ná að stilla upp en eru fremur stirðir í sókninni. 

15. mín:  5:4. Íslendingar eru með frumkvæðið. Heiðmar Felixson hefur komið ferskur inn af bekknum og er búinn að skora tvívegis. Snorri Guðjónsson er kominn inn á fyrir Ragnar sem fékk högg á andlitið.

10. mín: 2:1. Íslendingar hafa fengið tvær brottvísanir nú þegar í leiknum og hefur það riðlað leik liðsins. Sverre og Alexander hafa verið reknir af velli og einn Norðmaður. Heiðmar Felixson fær að spreyta sig í fyrsta skipti í áraraðir.  

5.mín: 2:1 Norðmenn komnir á blað en Sigurbergur kom Íslandi í 2:0 með þrumuskoti.

1.mín: 1:0 Alexander skoraði í fyrstu sókn leiksins. Ingimundur Ingimundarson og Sverre Jakobsen koma inn í vörnina í stað Ragnars og Sigurbergs.

Byrjunarlið Íslands:

Björgvin Páll Gústavsson - Guðjón Valur Sigurðsson, Sigurbergur Sveinsson, Ragnar Óskarsson, Alexander Petersson, Þórir Ólafsson, Róbert Gunnarsson.

Snorri Guðjónsson leikstjórnandi íslenska liðsins er leikfær og en hann hefur glímt við erfið hnémeiðsli í vetur. Eins og fram hefur komið eru talsverð forföll í íslenska liðinu sem saknar Ólafs Stefánssonar, Sigfúsar Sigurðssonar, Loga Geirssonar auk þess sem Snorri, Alexander Petterson og Aron Pálmarsson eru að stíga upp úr meiðslum.

Snorri Steinn Guðjónsson leikstjórnandi Íslands er leikfær gegn Norðmönnum.
Snorri Steinn Guðjónsson leikstjórnandi Íslands er leikfær gegn Norðmönnum. mbl.is/Brynjar Gauti
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert