Öruggur Haukasigur á Akureyri

Heimir Árnason, leikmaður Akureyrar, sækir að vörn Haukanna.
Heimir Árnason, leikmaður Akureyrar, sækir að vörn Haukanna. mbl.is/Kristinn

Haukar unnu öruggan sigur á Akureyringum, 24:20, í úrvalsdeild karla í handknattleik, N1-deildinni, í Höllinni á Akureyri í kvöld. Haukar styrktu því stöðu sína á toppnum með 14 stig en Akureyri er áfram í þriðja sæti með 11 stig.

Haukar gerðu útum leikinn í fyrri hálfleik þegar þeir náðu yfirburðastöðu og voru yfir, 15:7, í leikhléi. Þeir náðu mest tíu marka forskoti snemma í seinni hálfleik en Akureyringar náðu að laga stöðuna undir lokin án þess að eiga nokkurn tíma möguleika á að ógna sigri Hafnfirðinganna.

Birkir Ívar Guðmundsson átti stórleik í marki Hauka og varði vel á þriðja tug skota í leiknum.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is og í íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið verður ítarleg umfjöllun með viðtölum og myndum.

LEIK LOKIÐ

60. Flautað til leiksloka. Akureyri náði góðum lokaspretti og lagaði stöðuna. Leikurinn endaði 20:24 og góð byrjun Haukanna skilaði þeim þægilegum sigri.

57. Sjálfstraust heimamanna er greinilega lítið. Þeir þora varla að skjóta á markið. Birkir Ívar er alveg búinn að draga úr þeim máttinn. Staðan er 18:24 og lítið eftir.

52. Þegar átta mínútur eru eftir af leiknum er enn allt í sama horfinu. Haukar leiða nú 15:22.

47. Andri Snær Stefánsson hefur komið með nýtt líf í lið Akureyrar. Hann hefur stolið tveimur boltum og Oddur Gretarsson hefur skilað þremur hraðaupphlaupsmörkum. Áhorfendur eru að tryllast en staðan er enn harla vonlaus eða 14:21.

42. Haukarnir eru fyrir löngu búnir að vinna þennan leik. Það breytist ekkert hjá Akureyringum og ráðaleysi þeirra í sókninnni er með eindæmum. Birkir Ívar tekur flest skotin sem drífa á markið og munurinn er níu mörk. 10:19.

38. Þriðja vítakast Akureyrar forgörðum þegar Oddur Gretarsson skýtur í þverslá. 8:17.

35. Akureyringar ætla ekki að saxa neitt á Haukana. Hvert færið á fætur öðru fer í súginn og munurinn er orðinn tíu mörk. Staðan er 7:17.

31. Síðari hálfleikur er hafinn.

HÁLFLEIKUR

30. Staðan er enn 7:15 og það er kominn hálfleikur. Akureyri hefur oft byrjað leiki sína illa í vetur en þessi byrjun er líklega sú allra versta. Sóknarleikurinn er virkilega slappur og reynslumestu menn liðsins eru að bregðast. Haukarnir eru aftur á móti í miklum ham og það má mikið ganga á ef þeir eiga að tapa forskotinu niður. Birkir Ívar Guðmundsson varði 16 skot í fyrri hálfleik, þar af tvö vítaköst.

26. Enn versnar staða heimamanna. Þeir virðast ekki tilbúnir í svona toppleiki. Sóknin er mikið hnoð inn á miðjuna og línuna en margar sendingar þangað hafa farið í hendur Hauka. Birkir Ívar tók annað víti og er að verja mjög vel svo ekki veit Mbl hvernig Akureyringar ætla að vinna þennan mun upp. Dómgæslan er klárlega ekki með þeim svo ekki hjálpar hún þeim. Staðan er 6:14.

20. Akureyri tók leikhlé í stöðunni 3:9 og varnarleikur liðsins hefur batnað nokkuð. Haukar fá höndina upp í hverri sókn núna en læða enn inn mörkum. Staðan er enn alvarleg fyrir heimamenn, 5:12.

15. Stúkan lætur engan bilbug á sér finna þótt lið heimamanna eigi í mesta basli. Menn eru farnir að fjúka út af hjá Akureyringum og Haukar virðast hafa leikinn í hendi sér. Þær bæta bara jafnt og þétt við og ætla sér greinilega að vara á toppnum áfram. Staðan er nú 3:9.

10. Sóknarleikur Akureyringa er ansi ryðgaður á meðan allt gengur smurt hjá Haukum. Elías Halldórsson og Björgvin Hólmgeirsson eru í miklum ham og hafa skorað öll mörk Hauka. Birkir Ívar er búinn að verja eitt víti og forskotið hefur aukist. Staðan er nú 2:6.

9. Birkir Ívar Guðmundsson markvörður Hauka varði vítakast frá Jónatani Þór Magnússyni. Staðan 2:5.

5. Elías Már Halldórsson skoraði fyrstu þrjú mörk leiksins, staðan þá 0:3 fyrir Hauka. Stemmningin í Íþróttahöllinni er mögnuð á upphafsmínútum. 1000 manns hvetja heimamenn dyggilega. Sá stuðningur hefur ekki enn borið árangur en Haukarnir komust strax í 0:3. Staðan er nú 1:4 aftir tæpar fimm mínútur.

Liðin mættust á Ásvöllum í 2. umferð deildarinnar þann 14. október og skildu þá jöfn, 24:24.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert