Þreyttir Gróttumenn voru HK auðveld bráð

Anton Rúnarsson úr Gróttu skýtur að marki HK í leiknum …
Anton Rúnarsson úr Gróttu skýtur að marki HK í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn

HK vann stórsigur á Gróttu, 32:22, í úrvalsdeild karla, N1-deildinni, í handknattleik í Digranesi í kvöld. Leikmenn Gróttu voru með í leiknum í 25 mínútur en þá þraut þeim allur kraftur og HK sigldi örugglega framúr og vann örugglega. Þar með komst HK upp í 4. sæti deildarinnar en Grótta er í 6. sæti. Heimamenn voru fjórum mörkum yfir í hálfleik, 16:12.

Leikmenn Gróttu léku tvíframlengdan leik í bikarkeppninni á mánudagskvöldið gegn Víkingi. Greinileg þreytumerki voru á liðinu í leiknum í kvöld eftir þann maraþonleik.

Mörk HK: Valdimar Fannar Þórsson 7/2, Jón Björgvin Pétursson 6, Ragnar Hjaltested 6, Ólafur Víðir Ólafsson 5/1, Vilhelm Gauti Bergsveinsson 3, Atli Ævar Ingólfsson 2, Hákon Bridde 2, Bjarki Már Elísson 1.
Varin skot: Sveinbjörn Pétursson 17(þaraf 7 til móherja). Lárus Helgi Ólafsson 5 (þaraf 2 til mótherja).
Utan vallar: 2 mínútur.
Mörk Gróttu: Anton Rúnarsson 7/1, Hjalti Þór Pálmason 6, Arnar Freyr Theódórsson 2, Atli Rúnar Steinþórsson 2, Finnur Ingi Stefánsson 2, Jón Karl Björnsson 2, Árni Benedikt Árnason 1.
Varin skot: Gísli Rúnar Guðmundsson 8 (þaraf 3 til mótherja). Magnús Sigmundsson 4/1. Einar Rafn Inimarsson 1.
Utan vallar: 6 mínútur.

50. Í Digranesi er aðeins beðið eftir því að leiknum ljúki. Ljóst er hvorum megin sigurinn hafnar. HK hefur níu marka forskot, 27:19. Gróttumönnum virðist allur ketill falla í eld.

40. Tvíframlengdur bikarleikur Gróttumanna við Víking á mánudagskvöldið er greinilega farinn að setja mark sitt á leikmenn liðsins. Þeir virðast ekki hafa kraft í leikinn og yfirvegunin er engin eins og sést hefur á fjölda óyfirvegaðra skota. HK-liðið hefur hinsvegar ekki haldið vel á sínum málum og gæti hæglega verið með meira forskot með betri leik, staðan 20:14, HK í vil.

30. Gróttumenn hresstust aðeins eftir hléið sem Halldór tók þegar fimm mínútur voru til hálfleiks. HK-menn hafa verið klaufskir í síðustu sóknum auk þess sem Magnús Sigmundsson er kominn í mark Gróttu og hefur varið vel. Staðan 16:12, HK í hag.
Jón Björgvin Pétursson, Ragnar Hjaltested og Ólafur Víðir Ólafsson hafa skorað fjögur mörk hver fyrir HK. Hjalti Þór Pálmason er markahæstur Gróttumanna með fimm mörk. Anton Rúnarsson og Jón Karl Björnsson skoruðu tvö mörk hvor.
Sveinbjörn Pétursson hefur varið 12 skot í marki HK. Markverðir Gróttu hafa varið minna.

25. Skjótt skipast veður í lofti. Nokkrar mislukkaðar sóknir Gróttu sem strandað hafa á Sveinbirni Péturssyni markverði HK, hafa lagt grunn að hverju hraðaupphlaupi HK á eftir öðru. HK komið með fimm marka forskot, 15:10. Halldór Ingólfsson, þjálfari Gróttu, tekur leikhlé og freistar þess að hressa upp á sína menn.

20. Leikurinn er járnum og aðeins eitt mark hefur skilið liðin að allt frá upphafi. HK er yfir, 10:9, en Grótta var yfirleitt á undan á fyrsta stundarfjórðunginn.

10. Leikmenn hafa ekkert verið að ómaka sig of mikið við að leika vörn til þessa í leiknum. Í fimmtán sóknum hafa verið skoruð 12 mörk, staðan jöfn, 6:6. Sá fáheyrði atburður átti sér stað eftir rúmlega níu mínútna leik að Jón Karl Björnsson, leikmaður Gróttu, skaut í stöng úr vítakasti. Það sem meira er að hann náði frákastinu en skaut að ný í sömu markstöngina. Jón Karl hefur árum saman þótt afar örugg vítaskytta.

3. Rúmar tvær mínútur liðnar af leiknum, þrjár sóknir að baki og þrjú mörk, staðan 2:1, Gróttu í vil.

Kópavogsbúar og nærsveitungar mæta seint á leikinn í kvöld. Fátt er af áhorfendum nú þegar fimm mínútur er þangað til flautað verður til leiks.


Hinn þrautreyndi þjálfari Gróttu, Halldór Ingólfsson, ætlar ekki að leika með lærisveinum sínum að þessu sinni vegna meiðsla sem hann hlaut í bikarleik Geróttu og Víkings í byrjun vikunnar. Halldór gengur um leikvöllinn borgaralega klæddur og eys brunni reynslu sinni til leikmanna sem eru í óða önn að hita upp. Annar „gamall refur“, Davíð Gíslason, er hins vegar í leikmannahópi Gróttu, í þriðja sinn á leiktíðinni.

Dómarar leiksins í Digranesi í kvöld verða Gísli H. Jóhannsson og Hafsteinn Ingibergsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert