Baráttusigur Akureyringa á útivelli

Hörð barátta í leiknum á Hlíðarenda í dag.
Hörð barátta í leiknum á Hlíðarenda í dag. mbl.is/Eggert

Akureyri gerði sér lítið fyrir og vann Val, 27:24, á heimavelli Vals í fyrstu viðureign liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik í dag. Með mikill baráttu tókst Akureyringum að snúa leiknum sér í hag snemma í síðari hálfleik og halda Valsmönnum niðri. Staðan í hálfleik var 14:13. Val í vil. Liðin mætast öðru sinni í Höllinni á Akureyri á laugardagskvöldið klukkan 20.

Vörn Akureyrarliðsins var frábær lengst af leiksins en henni stjórnaði Guðlaugur Arnarsson eins og herforingi. Þá fór Hafþór Einarsson á kostum í markinu í síðari hálfleik og varði 14 skot og alls 17 með skotunum þremur í fyrri hálfleik.

Valsmenn náðu að minnka muninn í eitt mark, 22:21, þegar fjórar mínútur og tíu sekúndur voru til leiksloka. Lengra komust þeir ekki. Akureyringar svöruðu með þremur mörkum en segja má að eftir að 24. mark norðanmanna frá Jónatan Þór Magnússyni hafi verið afar mikilvægt. Þar með náðu Akureyringar þriggja marka forskot. Skömmu síðan náðu þeir fjögurra marka forystu en á lokakaflanum varði Hafþór mörg mikilvæg skot í mark Akureyrar.

Mörk Vals: Arnór Þór Gunnarsson 10/7, Fannar Þór Friðgeirsson 7, Baldvin Þorsteinsson 3, Elvar Friðriksson 2, Ingvar Árnason 1, Sigurður Eggertsson 1.
Varin skot: Hlynur Morthens 24 /1 (þaraf 8/1 til mótherja).
Utan vallar: 2 mínútur.
Mörk Akureyrar: Oddur Gretarsson 11/6, Hörður Fannar Sigþórsson 6, Geir Guðmundsson 3, Jónatan Þór Magnússon 3, Hreinn Þór Hauksson 2, Árni Þór Sigtryggsson 1, Guðmundur Hólmar Helgason 1.
Varin skot: Hafþór Einarsson 17 (þaraf 5 til mótherja). Hörður Flóki Ólafsson 3.
Utan vallar: 6 mínútur.

50. Baldvin Þorsteinsson var að minnka muninn í 21:19. Valsmenn hafa skorað tvö mörk í röð eftir að hafa verið um tíma fjórum mörkum undir. Akureyri tekur leikhlé. Valsmenn eru búnir með sitt leikhlé. Baráttan er mikil í leiknum og varnir beggja liða framúrskarandi.

45. Árni Þór Sigtryggsson, leikmaður Akureyrar,  var að koma til leiks á ný eftir að hafa fengið högg á höfuðið í fyrri hálfleik. Staðan 19:17, Akureyri í vil auk þess sem liðið er í sókn. 

40. Valsmenn voru að skora sitt fyrsta mark í síðari hálfleik; Baldvin Þorsteinsson eftir hraðaupphlaup. Staðan er 16:15, Akureyri í vil. Nú er fast tekist á fjölunum.

35. Akureyringar byrja síðar hálfleik mun betur og hafa skorað tvö fyrstu mörkin. Staðan er 15:14, Akureyri í vil. Valsmenn hafa verið klaufskir í byrjun síðari hálfleiks og m.a. hafa þrjú hraðaupphlaup þeirra runnið út í sandinn.

30. Flautað hefur verið til loka fyrri hálfleiks. Valur er marki yfir, 14:13. Akureyri átti möguleika á að jafna metin 20 sekúndum fyrir lok hálfleiksins en Hlynur Morthens varði sitt 16 skot í hálfleiknum. Hann hefur reynst Akureyringum afar erfiður.
Mikill baráttuhamur rann á norðanmenn í síðari hluta hálfleiksins. Vörnin hefur fyrir vikið batnað mikið. Fyrir vikið hefur þeim tekist að minnka muninn í eitt mark.
Arnór Þór Gunnarsson og Fannar Þór Friðgeirsson hafa skorað fimm mörk hvor fyrir Val.
Oddur Gretarsson er markahæstur hjá Akureyri með sjö mörk. Marverðir Akureyringa hafa ekki náð sér á strik. Hörður Flóki Ólafsson og Hafþór Einarsson hafa varið þrjú skot hvor. Hafþór varði sín skot á síðustu tveimur mínútum hálfleiksins en þeir skiptu hálfleiknum nokkuð jafnt á milli sín.
Nokkur harka hljóp í leikin undir lok fyrri hálfleiks og má búast við nokkrum átökum í síðari hálfleik ef fram heldur sem horfir.

24. Akureyri tekur leikhlé. Staðan er 13:10, Val í vil. Hlynur hefur farið á kostum í marki Vals og varið 13 skot, þar af eitt vítakast. Norðanmaðurinn Arnór Þór Gunnarsson er með 5 mörk fyrir Val eins og Fannar Þór Friðgeirsson. Oddur Gretarsson hefur skorað sex mörk fyrir Akureyri, þar af fjögur úr vítakasti.

20. Valur heldur sínu  forskoti, 12:9. Árni Þór er enn utan vallar. Svo virðist sem hann hafi fengið högg á vinstra auga. Ungur piltur, Geir Guðmundsson, leikur í sókninni í stað Árna Þórs og hefur þegar látið að sér kveða.

15. Árni Þór Sigtryggsson var að fara af leikvelli meiddur. Hann fékk högg á andlitið. Vonandi er þetta ekki alvarlegt svo Árni komi fljótlega til baka í leikinn. Staðan er 9:6, Val í vil.

14. Valsmenn byrjuðu afar vel og komust í 8:3 með góðri vörn og frábærri markvörslu Hlyns Morthens sem varð 10 skot fyrstu 10 mínúturnar. Akureyringar gáfust ekki upp og hafa nú gert þrjú mörk í röð. Staðan 8:6.

5. Valsmenn byrja leikinn mjög vel, ekki síst í vörninni þar sem leikmönnum Akureyrar gengur illa að skapa sér færi. Staðan, 5:2, fyrir Val.

Nú þegar fimm mínútur eru þangað til flautað verður til leiks er afar fáir áhorfendur mættir, sennilega eitthvað nærri 100.

Dómarar leiksins eru Magnús Kári Jónsson og Kári Garðarsson. Eftirlitsmaður er Helga Magnússon.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert