Með samstöðu er allt hægt

Karen Knútsdóttir verður fyrirliði íslenska landsliðsins í kvöld gegn Frökkum.
Karen Knútsdóttir verður fyrirliði íslenska landsliðsins í kvöld gegn Frökkum. mbl.is/Ómar

„Frakkar eru með eitt allra besta landslið í heiminum í dag. Við verðum að njóta þess að leika við svo sterkan andstæðing, reyna að gera okkar besta og ná stigum eða stigi,“ segir Karen Knútsdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik, um viðureign íslenska og franska landsliðsins í handknattleik kvenna í Laugardalshöll í kvöld. Flautað verður til leiks klukkan 19.30 en leikurinn er liður í undankeppni Evrópumeistaramótsins sem haldið verður í sameiginlegri umsjón Króata og Ungverja í desember.

Auk franska og íslenska landsliðsins eru í riðlinum landslið Slóvaka og Finna. Sem stendur er íslenska landsliðið í þriðja sæti eftir sigur á Finnum og eins marks tap fyrir Slóvökum á útivelli í haust sem leið. Íslenska landsliðið mætir Frökkum á nýjan leik í Limoges á laugardag en riðlakeppninni lýkur í vor þegar Finnar verða sóttir heim og Slóvakar koma hingað til lands í júní.

„Frakkar eru með gríðarlega gott lið og segja má að í liðinu séu tveir góðir leikmenn um hverja stöðu. Þar af leiðandi er ljóst að allt verður að ganga upp hjá okkur í leiknum annað kvöld [í kvöld] svo við getum náð í stig,“ segir Karen sem leikur í kvöld sinn 63 A-landsleik. Aðeins tveir leikmenn íslenska landsliðsins í kvöld hafa leikið oftar með íslenska landsliðinu, Arna Sif Pálsdóttir, 97, og Íris Björk Símonardóttir sem hefur leikið einum leik fleira.

Nánar er fjallað um viðureign Íslands og Frakklands í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert