ÍR á leið í tilgangslaust umspil?

ÍR-ingar eru líklega á leið í umspil sem mun engu …
ÍR-ingar eru líklega á leið í umspil sem mun engu máli skipta fyrir liðið þegar á hólminn verður komið. mbl.is/Árni Sæberg

Að öllum líkindum verður liðum í úrvalsdeild karla í handknattleik fjölgað úr 8 í 10 fyrir næstu leiktíð. Þó ekki hafi verið gengið endanlega frá því hjá Handknattleikssambandi Íslands hvernig nákvæmlega verður staðið að fjölguninni þá er nokkuð ljóst að ÍR, sem lauk keppni í 7. sæti Olísdeildarinnar að lokinni lokaumferð deildarinnar í gærkvöld, getur ekki fallið í 1. deild þó ÍR þurfi að fara í gegnum umspil um sæti í efstu deild - ekki nema áfram verði leikið í 8 liða úrvalsdeild. Þá horfir þetta öðru vísi við.

Það ræðst í kvöld hvort Afturelding eða Stjarnan vinnur 1. deild karla. Það lið sem vinnur deildina er öruggt með sæti í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð. Hitt liðið mætir Selfossi í undanúrslitum umspilsins um sæti í úrvalsdeild á meðan ÍR mætir Gróttu.

Engu máli skiptir fyrir ÍR hvort liðið vinni eða tapi fyrir Gróttu í undanúrslitum umspilsins. ÍR mun leika í efstu deild á næstu leiktíð verði tíu lið í deildinni á næstu leiktíð eins og allt stefnir í. Það er þó meira í húfi fyrir Gróttu, því ef Grótta slær ÍR út í undanúrslitum umspilsins kemst Grótta upp um deild og fellir um leið HK úr úrvalsdeild.

Sigurvegarinn úr hinni undanúrslitaviðureigninni sem eins og staðan er nú, verður væntanlega á milli Stjörnunnar og Selfoss, mun svo einnig vinna sér inn sæti í úrvalsdeild á næstu leiktíð við fjölgun í deildinni.

Verði liðum í úrvalsdeild karla fjölgað úr átta í tíu eins og allt stefnir í, munu undanúrslit umspilsins því ekki skipta neinu máli fyrir ÍR. Þau munu hins vegar skipta máli fyrir hin liðin þrjú og svo fyrir HK sem tekur þó ekki einu sinni þátt í umspilinu. Úrslit umspilsins munu svo ekki hafa neina þýðingu - Ekki nema að úrvalsdeildin innihaldi áfram átta lið á næstu leiktíð.

Liðin sem verða í 10 liða úrvalsdeild 2014-2015
Haukar
ÍBV
Valur
FH
Fram
Akureyri
ÍR
HK eða Grótta
Afturelding eða Stjarnan
Afturelding/Stjarnan/Selfoss

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert