Öruggur sigur ÍBV í fyrsta leiknum

Eyjamenn fagna sigrinum í leikslok í kvöld.
Eyjamenn fagna sigrinum í leikslok í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Eyjamenn eru komnir með yfirhöndina í viðureign sinni gegn Val í undanúrslitum Íslandsmóts karla í handbolta en liðin áttust við í fjörugum leik í Eyjum í kvöld.  Eyjamenn byrjuðu vel í leiknum og virtust ætla keyra Valsmenn í kaf en heldur hresstist leikur Valsmanna þegar á leið en staðan í hálfleik var 16:13.  En Eyjamenn héldu uppteknum hætti í síðari hálfleik og unnu að lokum 32:28.

Eyjamenn byrjuðu mun betur í leiknum og raun voru Valsmenn eins og smábörn í höndunum á heimamönnum.  Þannig komst ÍBV í 6-1 þegar aðeins tæpar átta mínútur voru liðnar en mestur varð munurinn sjö mörk á liðunum, 14:7.  Valsmönnum gekk afar illa að finna réttu leiðina í gegnum vörn ÍBV enda höfðu gestirnir aðeins skorað þrjú mörk þegar hálfleikurinn var rétt rúmlega hálfnaður.  En þá tóku þeir Ragnar Óskarsson og Ólafur Stefánsson til þess ráðs að róta í liðinu, allir sem byrjuðu leikinn fyrir Val fengu sér sæti og nýtt lið kom inn á völlinn.  Við það lagaðist leikur gestanna mikið, þeir minnkuðu muninn niður í þrjú mörk.

Valsmenn náðu að minnka muninn í tvö mörk en Eyjamenn breyttu stöðunni úr 19-17 í 23-17 og lögðu þar grunninn að sigrinum.  Þeir héldu Valsmönnum í hæfilegri fjarlægð eftir það og unnu verðskuldaðan sigur.  Liðin eigast við að nýju í Valsheimilinu á fimmtudaginn klukkan 16:00.

ÍBV 32:28 Valur opna loka
60. mín. Finnur Ingi Stefánsson (Valur) fiskar víti
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert