Yfirlýsing frá Leikmannasamtökunum vegna IHF

Kristinn Björgúlfsson sat umdeildan fund í Köln og er í …
Kristinn Björgúlfsson sat umdeildan fund í Köln og er í forsvari fyrir Leikmannasamtökin í þessu máli. mbl.is/Kristinn

Leikmannasamtök Íslands hafa sent frá sér yfirlýsingu um þá ákvörðun Alþjóða hand­knatt­leiks­sam­bands­ins, IHF, að veita Þýskalandi sér­stakt keppn­is­leyfi á heims­meist­ara­mót­inu í hand­knatt­leik karla á næsta ári og aft­ur­kalla keppn­is­leyfi Ástr­al­íu á mót­inu.

Um leið sniðgekk IHF eig­in regl­ur um að varaþjóð á HM skuli koma frá álfu heims­meist­ar­anna og hundsaði til­lög­ur Hand­knatt­leiks­sam­bands Evr­ópu, EHF, um varaþjóðir en Ísland var efst á þeim lista.

Yfirlýsinguna má lesa hér að neðan:

Fullur stuðningur við HSÍ

„Fréttir undanfarna daga um að Ísland leiki ekki á HM í Qatar hafa án efa ekki farið fram hjá nokkrum Íslendingi. Ástæða þess að Ísland á að komast inn sem varaþjóð er jú sú að ef að einhver þjóð dregur sig úr keppni eða fær ekki að vera með, eins og Ástralía í þessu tilviki skal fyrsta varaþjóð ríkjandi heimsmeistara (Evrópa í þessu tilviki þar sem Spánn er heimsmeistari) fá sætið.

Undirritaður sat fund með Leikmannasamtökum Evrópu (European Handball Players Union) í Köln þann 31.5.2014 og er það jú eftir umræddan fund þann er IHF átti að hafa sett nýja og afar umdeilda reglu. Á þeim fundi var forseti EHF Jean Brihault sem sat umræddan fund IHF, ásamt aðalritara EHF Michael Wiederer. Ekkert var rætt um hina nýju reglu sem allt snýst um. Ekki einu orði.

Eins og flestir fjölmiðlar hafa greint frá þá sendi EHF út bréf þess efnis er varðar varaþjóðir inn á HM í Qatar. Ekki þarf að velta því meira fyrir sér.

Svo virðist sem IHF hafi breytt sínum reglum á lokuðum fundi sem engar greinagerðir finnast um (allavega ekki ennþá) til þess eins að koma Þýskalandi á HM.

Leikmannasamtök Íslands telja það alveg ljóst að hér hafi peningar spilað inn í ákvörðun IHF, en ekki réttlætið. Ljóst er að þátttaka Þýskalands skiptir gríðarlegu máli þegar kemur að útsendingum í sjónvarpi og sölu á sjónvarpsrétti.

Sorgleg staðreynd er að hér er hreinlega um spillingarmál að ræða. IHF græðir peninga á því að senda Þýskaland á HM í stað „litla“ Íslands. Að þessi ákvörðun virðist hafa verið tekin í leyni er algjörlega ólýðandi á allan hátt. Og er eitthvað sem á ekki að eiga sér stað.

Leikmannasamtök Íslands standa 100% með HSÍ í þessu máli sem er hið vandræðalegasta fyrir EHF og IHF.

Fyrir Hönd Leikmannasamtaka Íslands

Kristinn Björgúlfsson“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert