Þorgerður Anna samdi við Leipzig

Þorgerður Anna Atladóttir í leik með Val í janúar 2013.
Þorgerður Anna Atladóttir í leik með Val í janúar 2013. mbl.is/Golli

Handknattleikskonan Þorgerður Anna Atladóttir gekk í dag formlega frá samningi við þýska félagið Leipzig, sem leikur í efstu deild landsins. Þorgerður gekk í raðir Flint/Tönsberg í Noregi síðasta sumar, en spilaði sinn síðasta leik fyrir félagið í nóvember vegna axlarmeiðsla sem hafa haldið henni frá handboltaiðkunn síðan. Forráðamenn Leipzig virðast þó hafa trú á því að Þorgerður geti aftur náð fyrri styrk og gerðu við hana tveggja ára samning með uppsagnarákvæði eftir fyrra árið.

Þorgerður mætir á sína fyrstu æfingu með liðinu á morgun. „Ég verð samt ekkert með á æfingunni. Öxlin er ekki orðin góð, en hún er skárri. Ég þarf bara að halda áfram núna í mínu bataferli og geri plan með sjúkraþjálfaranum. Ég efast um að ég verði orðin klár í fyrsta leik. Við verðum bara að sjá hvernig þetta gengur. Ég geri ráð fyrir því að fara frekar hægt í sakirnar svo ég eyðileggi mig ekki frekar. En ef þetta gengur ekki hjá mér í Leipzig þá gengur örugglega voða lítið annað upp hjá mér,“ sagði Þorgerður Anna þegar mbl.is ræddi við hana í dag.

Leipzig endaði í 2. sæti í efstu deild Þýskalands á síðustu leiktíð og í 2. sæti í úrslitariðlinum um þýska meistaratitilinn og leikur því í forkeppni Meistaradeildar Evrópu í haust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert