„IHF bað um umhugsunarfrest“

Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ.
Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ. mbl.is/Þorkell

„IHF telur sig ekki hafa gert neitt rangt þegar reglunum á mótafyrirkomulaginu var breytt. En við vildum samt reyna að finna lausn með þeim. Forráðamenn IHF telja það hafi verið nauðsynlegt að gera þessa breytingu,“ sagði Guðmundur B. Ólafsson formaður Handknattleikssambands Íslands, HSÍ við mbl.is í dag eftir fund sinn með Hassan Moustafa forseta Alþjóða handboltasambandsins, IHF í Basel í Sviss í dag.

Fundurinn í dag var haldinn í kjölfar breytinga á reglum IHF á mótafyrirkomulagi fyrr í sumar sem urðu til þess að Ástralía missti sæti sitt á HM 2015 í handbolta í Katar og Þýskaland fékk sætið þess í stað. Eins og reglurnar voru fyrir breytingar hefði Ísland átt að taka sæti Ástralíu.

„Við lokuðum ekki á neina dómstólaleið á fundinum. Við sögðum þeim að ef ekki væri hægt að finna lausn myndum við meta það hvort það yrði farið í mál eða ekki, og þá ræddum við líka með hvaða hætti það yrði gert. Alþjóða íþróttadómstóllinn er til dæmis gerðardómur, þar sem báðir málsaðilar þurfa að samþykkja að málið fari fyrir dóminn. Þannig við vorum bara að velta fyrir okkur stöðunni hvað það myndi þýða og kosta og þar fram eftir götunum ef sú leið yrði farin,“ sagði Guðmundur.

HSÍ stakk meðal annars upp á því á fundinum að liðum á HM í Katar yrði fjölgað og málin leyst þannig. „IHF tók ekkert illa í það, en vill fá umhugsunarfrest og sögðu ekki af eða á með neitt. Þannig nú bíðum við bara og sjáum hvað gerist næst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert