Gunnar : Fór þetta á egóinu

„Þetta var yndislegur sigur og ég er stoltur yfir að hafa fengið að spila með þessari yndislegu fjölskyldu sem var með á vellinum," sagði Gunnar Þórsson Malmqiust, leikmaður Aftureldingar sem tryggði liðinu sigur á ÍBV þegar hann skoraði örugglega úr vítakasti þegar hálf mínúta var eftir af leiknum að Varmá í dag, 24:22. Með sigrinum hélt Afturelding efsta sætinu í Olís-deildinni, eitt liða taplaust eftir þrjár umferðir.

Gunnar var auk þess markahæstur Mosfellinga með sex mörk. „Þetta var baráttusigur í baráttuleik tveggja liða sem gera út á stemninguna. Þegar upp var staðið vorum við sterkari," sagði Gunnar ennfremur en hann gekk til liðs við Aftureldingu í sumar frá Akureyri. 

„Ég hugsaði ekki um að við gætum tapað leiknum," sagði Gunnar um hvernig honum leið þegar hann tók vítakastið sem tryggði Aftureldingu sigurinn. „Ég fór þetta bara á egóinu og hugsaði bara að um að ég myndi skora. Það var ekki möguleiki að ég klikkaði," sagði Gunnar Malmquist.

Nánar er rætt við þennan hressa Akureyring  sem nú er í herbúðum Aftureldingar á meðfylgjandi myndskeiði. Gunnar segist m.a. vera týndi Mosfellingurinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert