Einar: Hann drífur ekki í markið

„Hann er svo laus að hann drífur ekki í markið. Venjulegur leikmaður hefði skorað,“ sagði Einar Andri Einarsson léttur á því eftir leikslok eftir að hafa horft á sína menn í Aftureldingu ná jafntefli gegn Haukum á lokasekúndunum, 21:21 í Oldís-deild karla í handknattleik. 

Jóhann Gunnar Einarsson hefði mögulega getað tryggt Aftureldingu ótrúlegan sigur en tíminn var of naumur og skotið ekki nægilega fast og voru þetta viðbrögð þjálfarans, sögð í gríni að sjálfsögðu.

„Nei, nei, maður heyrði að lokaflautið og ég var bara þakklátur fyrir stigið,“ sagði Einar en lið hans lenti í miklum vandræðum með varnarmúr Hauka og Morkunas í marki þeirra í síðari hálfleik.

„Við vorum í miklum vandræðum í seinni hálfleik og í erfiðleikum með að skora mörk. Við tókum á það ráð að bæta inn aukamanni, Haukarnir hafa beitt þessu vopni oft í gegnum tíðina með góðum árangri og við erum aðeins búnir að vera að kíkja á þetta, það gaf góða raun í dag. Ég er mjög ánægður að ná í stig í þessum leik,“ sagði Einar en nánar var rætt við hann í ofanverðu myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert