Haukar stöðvuðu sigurgöngu Mosfellinga

Hart barist í leik Aftureldingar og Hauka.
Hart barist í leik Aftureldingar og Hauka. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Haukar og Afturelding áttust við í sjöundu umferð Olís-deildar karla í handknattleik í Mosfellsbæ í kvöld en lokatölur urðu 21:21 í hreint út sagt ótrúlegum handboltaleik sem var spennandi allt til síðustu sekúndu. Mikil stemning var sem fyrr hjá Mosfellingum en 870 manns lögðu leið sína í íþróttahúsið að Varmá sem er áhorfendamet þar á bæ.

Haukar hófu leikinn af krafti og skoruðu fyrstu tvö mörkin og einhver skrekkur virtist vera í heimamönnum sem þó rönkuðu við sér eftir um fimm mínútna leik og við tóku fjögur mörk þeirra í röð.

Mosfellingar yfirhöndina í fyrri hálfleiknum og komust þeir mest í þriggja marka forskot í stöðunni 7:4 og 10:7. Haukarnir hleyptu þeim hins vegar aldrei of langt fram úr sér og skoruðu síðustu tvö mörk hálfleiksins.

Hafnfirðingar hófu síðari hálfleikinn betur en heimamenn og skoruðu fyrstu tvö mörkin og komust yfir 11:10. Svo ákvað Giedrius Morkunas markvörður Hafnfirðinga hreinlega að skella í lás og varði hvert skotið á fætur öðru og Mosfellingar áttu fá svör við honum en samtals varði hann 19 skot í leiknum.

Haukar höfðu yfirhöndina mestallan síðari hálfleikinn og voru þremur mörkum yfir þegar þrjár mínútur voru eftir. Heimamenn neituðu hins vegar að gefast upp og skoruðu þrjú síðustu mörkin.

Haukar áttu síðustu sóknina en misstu boltann þegar rúm sekúnda var eftir. Boltinn barst til Jóhanns Gunnars Einarssonar sem tók skotið en á meðan boltinn flaug yfir allan völlinn rann hins vegar leiktíminn út.

Afturelding er áfram taplaus í deildinni og er í toppsætinu með þrettán stig en Haukar hafa sjö stig í 4. sæti.

Fylgst var með gangi mála í leiknum hér á mbl.is.

Afturelding 21:21 Haukar opna loka
60. mín. Jóhann Jóhannsson (Afturelding) skoraði mark Roosalegt mark hjá Jóhanni. Það þurfti pung í að taka skotið þarna.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert