Sigurður Örn hetja Framara

Sigurður Örn Þorsteinsson var markahæsti leikmaður Fram gegn Stjörnunni og …
Sigurður Örn Þorsteinsson var markahæsti leikmaður Fram gegn Stjörnunni og skoraði auk þess sigurmarkið. mbl.is/Ómar Óskarsson

Sigurður Örn Þorsteinsson var hetja Fram-liðsins þegar hann tryggði því sigur á Stjörnunni, 23:22, í með því að skora á síðustu sekúndu leiks liðanna í TM-höllinni í Garðabæ í kvöld. Þar með lyfti Fram sér upp um tvö sæti í deildinni, af botninum og upp í áttunda sæti með fjögur stig. Stjarnan er fyrir neðan með þrjú stig og HK rekur lestina með tvö stig.

Fyrri hálfleikur var nokkuð jafn en frumkvæðið var heldur í höndum Fram-liðsins sem var með tveggja marka forskot, 12:10, þegar gengið var til búningsherbergja í hálfleik.

Fram náði mesta fjögurra marka forskoti, 20:16, í síðari hálfleik en Stjörnumenn gáfust ekki upp. Þeir söxuðu á forystu Framara á lokasprettinum svo úr varð æsilegur lokakafli þar sem Fram hafði naumlega betur.

Ólafur Jóhann Magnússon, leikmaður Fram, fékk rauða spjaldið í stöðunni 20:16, en þá voru níu mínútur eftir. Þar sem um beint rautt spjald er að ræða má reikna með að hann verði úrskurðaður í leikbann.

Kristinn Björgúlfsson lék sinn fyrsta leik með Fram eftir að hafa skipt í gær frá ÍR. Hann kom með reynslu inn í liðið sem reyndist  dýrmæt. Auk þess skoraði hann fimm mörk. 

Mörk Stjörnunnar: Andri Hjartar Grétarsson 6, Þórir Ólafsson 6, Sverrir Eyjólfsson 3, Ari Magnús Þorgeirsson 2, Starri Friðriksson 2, Egill Magnússon 1, Gunnar Harðarson 1, Hrannar Bragi Eyjólfsson 1.

Mörk Fram: Sigurður Örn Þorsteinsson 6, Kristinn Björgúlfsson 5, Garðar B. Sigurjónsson 4, Stefán Baldvin Stefánsson 3, Stefán Darri Þórsson 3, Arnar Freyr Ársælsson 1, Ólafur Jóhann Magnússon 1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert