Atli Ævar og Aron Rafn nær toppnum

Landsliðsmarkvörðurinn Aron Rafn Eðvarðsson ver mark Guif.
Landsliðsmarkvörðurinn Aron Rafn Eðvarðsson ver mark Guif. mbl.is/Eva Björk

Íslendingaliðið Guif er 2 stigum frá toppsæti sænsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik eftir mikilvægan útisigur á Hammarby í kvöld, 29:27.

Hammarby skoraði fimm mörk í röð snemma í seinni hálfleik og komst þremur mörkum yfir, 21:18, en Guif náði þá mögnuðum kafla og komst í 27:22. Sigurinn var því ekki í hættu á lokamínútunum.

Fyrir leikinn munaði einu stigi á liðunum í 5. og 6. sæti en Guif jók þann mun í þrjú stig í kvöld og er í 4. sæti með 16 stig eftir 13 leiki. Kristianstad er á toppnum með 18 stig eftir 11 leiki.

Atli Ævar Ingólfsson skoraði 1 mark fyrir Guif í kvöld og Aron Rafn Eðvarðsson landsliðsmarkvörður varði 15 skot. Kristján Andrésson er þjálfari liðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert