IHF hefur greitt Áströlum bætur

Liðsmynd af karlalandsliði Ástralíu í handbolta.
Liðsmynd af karlalandsliði Ástralíu í handbolta. Ljósmynd/Ástralska handboltasambandið

Alþjóða handknattleikssambandið, IHF, hefur greitt ástralska handknattleikssambandinu bætur vegna kostnaðar sem sambandið og leikmenn lögðu út fyrir vegna þátttöku í undankeppni heimsmeistaramótsins sem fram fer í Katar í janúar.  Jan Ottosen, landsliðsþjálfari Ástrala, segir bæturnar litlar og standi ekki undir nema hluta þess kostnaðar sem lagt hafi verið út fyrir. 

Eins og kunnugt er þá var keppnisleyfi ástralska handknattleikslandsliðsins á HM í Katar afturkallað í sumar. Þá þegar hafði ástralska landsliðið tryggt sér keppnisrétt með þátttöku í undanleikjum. Leikmenn landsliðsins greiddu stóran hluta af þeim kostnaði sem þátttökunni fylgdi. Eins stóðu þeir straum af kostnaði við æfingabúðir.

Ottosen, sem er danskur, segir IHF hafa komið til móts við kröfur ástralska sambandsins um að því og leikmönnum yrðu greiddar bætur fyrir útlögðum kostnaði við æfingabúðirnar. Greiðsla hafi borist frá IHF fyrir skömmu og væri hún lagt frá því að standa undir útlögðum kostnaði.

Ástralska handknattleikssambandið  berst enn fyrir rétti sínum um að taka þátt í HM í Katar í janúar. Ottosen segir að ef landsliðið verði ekki með muni fjórir eða fimm af bestu leikmönnum landsliðsins leggja handboltaskóna á hilluna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert