Vilja vera með á HM í Katar

Handbolti - bolti
Handbolti - bolti Eva Björk Ægisdóttir

Handknattleikssamböndin í Bahrein og Sameinuðu arabísku furstadæmunum hafa óskað eftir að fá að taka þátt í heimsmeistaramótinu í handknattleik sem fram fer í Katar í janúar. Tilkynning þess efnis birtist fyrir skammri stundu á heimasíðu Alþjóða handknattleikssambandsins, IHF. 

Bahrein og Sameinuðu arabísku furstadæmin afturkölluðu keppnisrétt sinn á HM fyrr í þessum mánuði og báru við að undirbúningur landsliðanna hafi ekki verið nægur til þess að þau gætu tekið þátt. Í morgun bárust ferngir af vaxandi þýðu í samskiptum ríkjanna tveggja við Katar sem verður gestgjafi heimsmeistaramótsins. M.a. hefur stjórnmálasamband verið tekið upp að nýju. Sú staðreynd hefur greinilega hleypt lífi í undirbúning landsliðanna ef marka má ósk handknattleikssambandanna tveggja um að fá að taka þátt.

Framkvæmdastjórn IHF kemur saman á föstudaginn þar sem þetta mál verður m.a. tekið fyrir. Fátt virðist eiga að koma í veg fyrir að IHF samþykki ósk Bahrein og Sameinuðu arabísku furstadæmunum verði samþykkt. Þar með verður vart úr því að íslenska landsliðið verði á meðal þátttakenda á HM í Katar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert