ÍR-sig­ur í Mos­fells­bæ og annað sæti

Björgvin Þór Hólmgeirsson ÍR-ingur reynir skot að marki Aftureldingar í …
Björgvin Þór Hólmgeirsson ÍR-ingur reynir skot að marki Aftureldingar í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn

ÍR-ingar lyftu sér upp í annað sæti Olís-deildar karla í handknattleik í kvöld þegar þeir unnu Aftureldingu, 31:26, í íþróttahúsinu í Mosfellsbæ.  Afturelding færðist niður í þriðja sætinu með tapinu. ÍR var mikið betra liðið allan leikinn og hafði fjögurra marka forskot í hálfleik, 16:12, og náði mest sjö marka forskoti í síðari hálfleik.

ÍR-ingar tóku yfirhöndina í leiknum strax í upphafi. Að því undanskildu að Aftureldingarmönnum tókst að jafna metin í fáein skipti framan af þá voru ÍR-ingar með forskot, tvö til fjögur mörk allan hálfleikinn. Þegar um fimm mínútur voru eftir af hálfleik, og ÍR var marki yfir, þá var í tvígang með nokkurra sekúndna millibili dæmdar tvær mínútur á Einar Andra Einarsson, þjálfara Aftureldingar. Það hafði skiljanlega slæm áhrif á heimamenn sem misstu gestina fjórum mörkum fram úr sér áður en flautað var til hálfleiks, 16:12

Leikmenn ÍR hófu síðari hálfleik af miklum krafti. Þeir létu kné fylgja kviði frá fyrri hálfleik. Vörn þeirra var góð og þeir léku varnarmenn Aftureldingar grátt hinum megin vallarins. Eftir 11 mínútur í síðari hálfleik var munurinn sem mörk, 23:17, ÍR í vil. Ekki stóð seinn yfir steini hjá Mosfellingum. Varnarleikurinn var í molum og leikgleðin sem liðið flaut að fram eftir vetri var farinn út í veður og vind eftir stormana síðustu vikurnar.  Þá varð umpólun á leiknum í kjölfar þess að Afturelding varð tveimur mönnum fleiri í hálfa aðra mínútu.  Mosfellingar komust á bragðið og tókst á nokkurra mínútna kafla að minnka munninn úr 17:23 í 22:25. Nær komust Aftureldingarmenn ekki þrátt fyrir að hafa á því möguleika. ÍR-ingar héldu sjó og unnu kærkominn sigur og lyftu sér um leið upp í annað sæti deildarinnar. Mosfellingar taka þriðja sætið í þeirra stað.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Afturelding 26:31 ÍR opna loka
60. mín. Kristinn Bjarkason (Afturelding) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert