Frakkar leggja fram kæru

Þjóðverjinn Anna Loerper freistar þess að fara á milli Allison …
Þjóðverjinn Anna Loerper freistar þess að fara á milli Allison Pineau og Camille Ayglon í umdeildum leik Þjóðverja og Frakka á EM í handbolta kvenna í gær. AFP

Frakkar hafa lagt kæru vegna framkvæmdar leik þeirra við Þjóðverja í milliriðlakeppni Evrópumótsins í handknattleik kvenna í gær. Ástæðan er sú að þegar Þjóðverjar skoruðu 17. mark sitt í leiknum voru þeir með einum of marga leikmenn inni á leikvellinum. Bent Nyegaard, sérfræðingur TV2 í Danmörku, segir atvikið svo alvarlegt að ekki verði hjá því komist að strika úrslit leiksins út og leika hann upp á nýtt.

Þannig er mál með vexti að eftir rúmlega 36 mínútur var einum leikmanni þýska landsliðsins vísað af leikvelli eftir að hafa gengið nokkuð harkalega fram í vörninni. Staðan var 16:14, fyrir Þjóðverja. Eftir að leikmaðurinn fór að leikvelli sneru Þjóðverjar fljótlega vörn í sókn. Þá áttu sóknarmenn þýska liðsins að vera fimm en voru þess í stað sex. Dómarar leiksins og eftirlitsmenn á tímavarðarborðinu tóku ekki eftir að þýska liðið var ólöglegt á leikvellinum. Þjóðverjar skoruðu mark, 17:14, sem aldrei hefði átt að gilda.

„Ekki aðeins voru Þjóðverjar með of marga leikmenn inni á leikvellinum heldur áttu þeir að fá viðbótarbrottrekstur fyrir að vera með of marga leikmenn," segir Nyegaard. „Mistök Þjóðverja, dómarana og eftirlitsmanna eru það alvarleg að mínu mati að ekki verður hjá því komist að leika leikinn upp á nýtt," bætir Nyegaard við.

Frakkar segjast ekki reikna með að kæra þeirra skili þeim nýjum leik eða að ólöglegt mark Þjóðverja verði strikað út. Málið verður tekið fyrir á næstu klukkustundum áður en flautað verður til leiks í lokaumferð beggja milliriðlanna. 

Fyrrgreindum leik lauk með jafntefli, 24:24. Frakkar eru nú með með fimm stig ásamt Hollendingum í þriðja til fjórða sæti milliriðils tvö. Svartfellingar hafa sex stig og Svíar sjö. Tvö efstu lið riðilsins fara í undanúrslit. Í lokumferðinni í dag mæta Frakkar Hollendingum og Svarfellingar og Svíar eigast við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert