„Var í áttunda vítinu“

Lárus Helgi, til hægri, ásamt Þorgrími bróður sínum.
Lárus Helgi, til hægri, ásamt Þorgrími bróður sínum. Ljósmynd/hk.is

„Ég varði þrjú víti í leik í yngri flokkunum fyrir mörgum árum,“ sagði Lárus Helgi Ólafsson, markvörður HK, sem í fyrrakvöld varði sjö af átta vítaköstum í leik við FH í Olís-deildinni í handknattleik.

„Ég var í áttunda vítinu. Verst að ná því ekki og jafna metið hans Sebastians,“ sagði Lárus Helgi og vísar til þess að eftir því sem næst verður komist á Sebastian Alexandersson metið yfir flest varin vítaköst í kappleik í efstu deild hér á landi.

Sebastian varði átta vítaköst þegar hann stóð í marki Fram, í leik við Hauka í Framhúsinu 9. nóvember 1998. Jón Karl Björnsson, þekkt vítaskytta, var sá eini sem náði að læða boltanum framhjá Sebastian af sjö metra línunni. Af vítaköstunum átta sem Sebastian varði náði hann sex þeirra í síðari hálfleik.

„Ég varði sex víti í röð áður en Daníel [Matthíasson] náði að skora einu sinni og síðan tók ég síðasta vítið frá honum,“ sagði Lárus Helgi.

Þegar Sebastian varði vítaköstin átta gegn Haukum fyrir 16 árum sagði hann í samtali við Morgunblaðið að um heppni hefði verið að ræða.

Sjá ítarlega úttekt um vítabanana í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert