Pétur og Kolstad í úrvalsdeildina

Lið Kolstad sem hefur unnið sér sæti í úrvalsdeildinni. Pétur …
Lið Kolstad sem hefur unnið sér sæti í úrvalsdeildinni. Pétur Pálsson er númer 7. Ljósmynd/kolstad-handball.no

Pétur Pálsson og samherjar hans í Kolstad tryggðu sér á sunnudaginn sæti í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik með því að vinna Sandefjord á útivelli, 23:22, í æsispennandi uppgjöri. Markvörður Kolstad, Goran Rajkovic, varði vítakast á síðustu sekúndunni og gulltryggði liðinu úrvalsdeildarsætið.

Pétur, sem áður lék með Haukum, hefur verið í lykilhlutverki hjá liði Kolstad. Þetta verður í fyrsta skipti í átta ár sem lið frá Þrándheimi og nágrenni spilar í úrvalsdeildinni í karlaflokki en lið Heimdal var þar síðast árið 2007.

Þremur umferðum er ólokið í norsku 1. deildinni en sigurinn á Sandefjord, gamla stórveldinu, var sá sautjándi í nítján leikjum hjá Pétri og félögum. Þeir eru með 34 stig, Viking er með 30 en Falk Horten og St. Hallvard eru með 26 stig. Tvö efstu liðin fara beint upp og það þriðja fer í umspil.

Vonir Sandefjord um að komast aftur upp eru að engu orðnar með tapinu en liðið er aðeins í sjötta sæti deildarinnar.

Verr hefur gengið hjá Íslendingaliðinu Kristiansund, undir stjórn Jónatans Magnússonar, þar sem fimm Íslendingar spila. Það er næstneðst og þegar fallið niður í 2. deild. Með Kristiansund spila Sigurgeir Ægisson, Guðmundur Guðmundsson, Halldór Guðjónsson, Fannar Helgi Rúnarsson og Friðrik Svavarsson. vs@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert