Jón Gunnlaugur hættir í Eyjum

Jón Gunnlaugur Viggósson ræðir við leikmenn ÍBV. Hann hættir þjálfun …
Jón Gunnlaugur Viggósson ræðir við leikmenn ÍBV. Hann hættir þjálfun liðsins í vor. Kristinn Ingvarsson

Jón Gunnlaugur Viggósson, þjálfari kvennaliðs ÍBV í handknattleik undanfarin tvö ár, hefur ákveðið að hætta með liðið við lok leiktíðar í vor. Um leið hættir hann einnig þjálfun yngri flokka félagsins. Jón Gunnlaugur sagði við mbl.is að hann langaði að færa sig yfir þjálfun í karlaflokkum eftir nokkurra ára þjálfun kvennaliða, fyrst hjá FH og síðan hjá ÍBV.

Það með þykir nokkuð ljós að Jón Gunnlaugur hyggst flytja á höfuðborgarsvæðið á nýjan leik.

Jón Gunnlaugur segist hætta í góðu samkomulagi við forráðmenn handknattleiksdeildar ÍBV. Hann segist hafa greint forráðamönnum ÍBV frá því um áramót að hugur hans stæði til þess að söðla um. Jón Gunnlaugur segist nokkuð sáttur við sinn árangur sem sinn hjá ÍBV en lið hans í meistaraflokki og unglingaflokki hafa um 80% sigurhlutfall á þessu og síðasta keppnistímabili.

ÍBV hafnaði í þriðja sæti Olís-deildar á síðustu í leiktíð. Nú sem stendur er liðið í fimmta sæti auk þess sem ÍBV komst í undanúrslit Coca Cola-bikarsins en tapaði fyrir Gróttu í hörkuleik um réttinn til að leika til úrslita. Grótta varð síðan bikarmeistari.

Jón Gunnlaugur segist hafa fundið fyrir áhuga frá félögum. Hann gerir sér góðar vonir um að finna verkefni í þjálfun sem verði til þess að efla sig enn frekara sem þjálfara.

Jón Gunnlaugur vonar að góður þjálfari reki á fjörur Eyjamanna til að taka við sínu starfi.

Jón Gunnlaugur er annar þjálfarinn í Olís-deild kvenna sem hefur sagt starfi sínu lausu á síðustu dögum. Hinn er Halldór Harri Kristjánsson, þjálfari Hauka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert