Er Ege á leið til Alfreðs?

Róbert Gunnarsson kominn í opið færi gegn Steinar Ege í …
Róbert Gunnarsson kominn í opið færi gegn Steinar Ege í landsleik Íslendinga og Norðmanna í Drammen 2008. Hákon Freyr

Norskir og danskir fjölmiðlar fullyrða að fyrrverandi landsliðsmarkvörður Noregs, Steinar Ege, hafi samþykkt að draga fram keppnisskóna á nýjan leik og hlaupa í skarðið hjá þýska meistaraliðinu Kiel, sem Alfreð Gíslason þjálfar, út þessa leiktíð vegna meiðsla markvarða liðsins. 

Vitað er að Andreas Palicka glímir við meiðsli og óvíst hvenær hann mætir til leiks á ný. Hinn ungi danski markvörður, Kim Sonne, er þriðji markvörður liðsins en skortir reynslu. Alfreð vill greinilega hafa meiri reynslu til vara með Sjöstrand ef Palicka verður lengi frá keppni. Framundan er lokaspretturinn í Meistaradeild Evrópu og í þýsku 1. deildinni þar em Kiel er efst en Rhein-Neckar Löwen er skammt undan.

Kiel hefur ekki greint frá komu Norðmannsins til Kiel né hann sjálfur. Ege afþakkaði viðtöl við norska fjölmiðla í gærkvöldi. Hinsvegar kemur fram á heimasíðu norska handknattleikssambandsins að það hefur langt blessun sína yfir félagsskipti fyrir Ege til Kiel.

Ege lék með Kiel á árunum 1999 til 2002 og var lengi í hófi bestu markvarða Evrópu og lék árum saman í Þýskalandi en einnig í Danmörku og á Spáni auk heimalandsins. 

Ege er 42 ára gamall og hefur ekki leikið handknattleik í rúm tvö ár. Hann hefur m.a. verið markvarðaþjálfari norska karlalandsliðsins síðustu misseri. 

Reglurnar eru þannig í Þýskalandi að félag getur skrifað undir samning við leikmann fyrirvaralaust hafi hann ekki tekið þátt í opinberum kappleikjum á keppnistímabilinu. Ef til þess kemur að Ege taki fram skóna með Kiel verður hann gjaldgengur með liðinu jafnt í Meistaradeild Evrópu og í þýsku 1. deildinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert