Við erum á lífi

„Leikurinn var góður hjá okkur en sérstaklega var fyrri hálfleikurinn frábær," sagði Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyrar eftir fimm marka sigur á Haukum, 25:20, í lokaleik 25. umferðar Olís-deildar karla í handknattleik í Schenkerhöllinni á Ásvöllum í dag. 

Með sigrinum færðist Akureyrarliðið upp upp um tvö sæti, úr því sjöunda upp í fimmta en mikill stígandi hefur verið í Akureyrarliðinu upp á síðkastið. 

„Mér finnst alveg meiriháttar að vinna hér með fimm marka mun. Grunninn leggjum við með góðri vörn og markvörslu auk þess sem menn eru skynsamir í sóknarleiknum," segir Atli og bætir við. „Þessi sigur og gegn ÍBV um síðustu helgi undirstrikar að við erum á lífi og að við ætlum okkur að gera eitthvað í úrslitakeppninni," sagði Atli.

Nánar er rætt við Atla Hilmarsson á meðfylgjandi myndskeiði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert