Á ekki að vera hægt að snúa sig í þessum spelkum

Jón Heiðar Gunnarsson.
Jón Heiðar Gunnarsson. Eva Björk Ægisdóttir

Jón Heiðar Gunnarsson línumaður ÍR-inga sneri sig illa á ökkla í gær í tapi liðsins gegn Aftureldingu í Olís-deild karla í handknattleik og óvíst er um þátttöku hans í úrslitakeppninni. Hann vonast þó til þess að verða klár fyrir fyrsta leik í úrslitakeppninni þann 7. apríl.

„Þetta er svo bólgið, það er erfitt að segja til um það hvað þetta mun koma til með að taka langan tíma. Það er mikil bólga í þessu og að öllum líkindum er þetta slæm tognun,“ sagði Jón Heiðar sem notast nú við hækju til að hlífa fætinum.

„Ég greip eina með mér til þess að hlífa fætinum. Maður er bara með löppina upp í loft og reynir að hlífa henni eins mikið og hægt er,“ sagði Jón sem segir að það eigi ekki að vera hægt að snúa sig á ökkla með þær ökklaspelkur sem hann notast við.

„Ég var alltaf að lenda í þessu þegar ég var að taka mín fyrstu skref í meistaraflokki. Þá var þetta reglulegur viðburður. Svo fékk ég mér ökklaspelkur sem hafa reddað þessu síðastliðin tíu ár. Það á ekki að vera hægt að snúa sig í þessum spelkum og ég skil ekki hvernig þetta gat gerst í gær,“ sagði Jón Heiðar.

ÍR er í þriðja sæti deildarinnar og mætir eins og staðan er í dag Akureyri í átta liða úrslitunum. Það er þó alls kostar óvíst þar sem liðið getur einnig mætt Haukum og ÍBV.

Björgvin Hólmgeirsson stórskytta Breiðhyltinga hefur verið meiddur í rist frá því leik liðsins við HK þann 5. mars en í samtali við mbl.is sagði Björgvin að hann myndi að minnsta kosti spila einhverjar mínútur með ÍR í fyrsta leik úrslitakeppninnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert