Hef lengi ætlað að flytja til Eyja

„Þetta mál hefur haft skamman aðdraganda og þegar við settumst niður þá vorum við ekki lengi að ganga frá þessu," sagði Hrafnhildur Ósk Skúladóttir, fyrrverandi landsliðskona í handknattleik, eftir að hún skrifaði undir tveggja ára samning um þjálfun kvennaliðs ÍBV í dag í Kaffivagninum á Granda.

„Það hefur lengi lengið fyrir að ég ætlaði mér út í þjálfun þegar ég hætti að leika handknattleik. Nú er komið ár síðan ég hætti og mál til komið að fara að þjálfa," sagði Hrafnhildur Ósk sem varð Íslandsmeistari sem leikmaður Vals fyrir ári síðan og lagði skóna hilluna góðu í framhaldinu. Árið sem liðið notaði hún m.a. til þess að eignast sitt þriðja barn.

Hrafnhildur tekur við ÍBV-liðinu á næsta keppnistímabili en núverandi þjálfari ÍBV, Jón Gunnlaugur Viggósson, stýrir liðinu fram á sumar en ÍBV er enn með í úrslitakeppni Olís-deildarinnar. 

„Ég hef þjálfað yngri flokka síðan ég var 14 ára, sem eru ansi mörg ár. Umhverfið í liðinu í Eyjum er spennandi. Það hefur lengi verið á stefnuskránni hjá mér að flytja til Eyja og nú verður af því," segir Hrafnhildur.

Hrafnhildur reiknar með að einhverjar breytingar verði á leikmannahópi ÍBV. Þrír leikmenn liðsins búa í Reykjavík. Þeir verða ekki áfram að sögn Hrafnhildar. Tveir útlendingar leika einnig með ÍBV og segist Hrafnhildur vonast til að þeir verði áfram. „Það er ljóst að Ester Óskarsdóttir verður áfram. Hún er algjör lykilmaður í liðinu. Síðan er mikill efniviður fyrir hendi," segir Hrafnhildur Ósk Skúladóttir sem hlakkar til þess að taka að sér nýja áskorun í kringum handboltann.

Nánar er rætt við Hrafnhildi á meðfylgjandi myndskeiði. 

Hrafnhildur Ósk Skúladóttir t.v. ásamt Karli Haraldssyni formanni meistaraflokksráð ÍBV.
Hrafnhildur Ósk Skúladóttir t.v. ásamt Karli Haraldssyni formanni meistaraflokksráð ÍBV. mbl.is/íben
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert