Spiluðum frábæra vörn

Stefán Arnarsson, þjálfari Fram, var ánægður með að taka forystuna í einvígi Fram og Stjörnunnar í undanúrslitum Olís deildar kvenna í handknattleik. Liðin áttust við í Safamýrinni í kvöld og urðu lokatölur 21:20 í jöfnum og æsispennandi leik. 

„Ég er mjög ánægður með að vera kominn í forystu. Við spiluðum þennan leik einstaklega vel að mínu mati. Við spiluðum gríðarlega góða vörn í leiknum í kvöld og auk þess fengum við góða markvörslu. Við hefðum getað komið okkar í þægilega forystu í stöðunni 14:11, en klikkuðum á tveimur góðum færum. Þær ná að jafna í kjölfarið, en sem betur fer kom það ekki að sök þar sem við sýndum karakter með því að sigla þessu heim í lokin.“  

Nadia Ayelen Bordon markvörður Fram sleit krossband í æfingaferð með argentínska landsliðinu og verður af þeim sökum ekki meira með það sem eftir lifir af tímabilinu. Það kom hins vegar ekki að sök í leiknum í kvöld þar sem Hafdís Lilja Torfadóttir varði vel í marki Fram.

„Það er alltaf slæmt að missa öfluga leikmenn. Nadia (Nadia Ayelen Bordon) hefur staðið sig vel í vetur og það setur strik í reikninginn að hún detti út vegna meiðsla. Hafdís Lilja sem leysti Nadiu af hólmi spilaði hins vegar mjög vel í leiknum í kvöld. Hafdís hjálpaði okkur mikið og átti stóran þátt í þessum sigri.“  

Áhorfandi Stjörnunnar í hlutverki dómara?

Einkennilegt atvik átti sér stað í fyrri hálfleik þegar leikmaður Fram taldi sig heyra flaut frá dómurum leiksins. Flautið virtist hins vegar koma úr áhorfendahópi Stjörnunnar og var afskaplega líkt dómaraflautu. Stefán var að vonum ekki sáttur við þessa atburðarrás.

„Það er bara vonandi að þetta komi ekki fyrir aftur. Það er klárlega tekið af okkur mark þarna. Það er að sjálfsögðu jákvætt hversu margir komu að horfa á leikinn í kvöld og studdu bæði lið dyggilega. Það er hins vegar alveg á hreinu að þú mátt ekki vera að flauta upp í stúku og hafa áhrif á leikmenn liðanna.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert