Stöngin út hjá okkur

Sólveig Lára Kjærnested, fyrirliði Stjörnunnar, var svekkt með niðurstöðuna úr fyrsta leik Stjörnunnar og Fram í undanúrslitum Olís deildar kvenna í handknattleik. Lokatölur í leiknum í kvöld urðu 21:20 Fram í vil eftir jafnan og æsispennandi leik.

„Þetta var bara svolítið stöngin út hérna í kvöld fyrir okkur. Það var mjótt á mununum allan leikinn og bæði lið spiluðu vel í kvöld. Það er fullt af litlum atriðum sem við getum fundið og lagað í næsta leik. Nú er bara að kafa ofan í það og gera betur í leiknum á laugardaginn. Við sjáum það í kvöld að við eigum góðan möguleika á að komast áfram í þessu einvígi. Við mætum fullar sjálfstrausts í leikinn á laugardaginn og jöfnum vonandi einvígið.“

Skorti yfirvegun í sóknarleikinn 

Hafdís Lilja Torfadóttir, markvörður Fram, reyndist Stjörnunni óþægur ljár í þúfu í leiknum í kvöld. Sólveigu Láru fannst að leikmenn Stjörnunnar hefðu getað gert betur í sóknarleiknum.  

„Við vorum að koma okkur í fullt af fínum færum í kvöld og hefðum getað klárað þau mun betur. Við vorum stundum að „slútta“ full snemma og hún er bara mætt. Við vorum að láta hana verja of mikið frá okkur. Hafdís Lílja er ung og efnileg stelpa, en mér fannst við geta gert mun betur gegn henni í kvöld. Nú er bara að safna orku og mæta dýrvitlausar til leiks í Mýrina á laugardaginn.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert