Vorum hræddar við Florentinu

Elísabet Gunnarsdóttir, Fram. Þórhildur Gunnarsdóttir og Stefanía Theodórsdóttir (14) Stjörnunni.
Elísabet Gunnarsdóttir, Fram. Þórhildur Gunnarsdóttir og Stefanía Theodórsdóttir (14) Stjörnunni. mbl.is / Árni Sæberg

Elísabet Gunnarsdóttir, leikmaður Fram, var ekki ánægð með sóknarleik liðsins þegar Fram tapaði fyrir Stjörnunni í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Olís deildar kvenna í handknattleik í Mýrinni í dag. Lokatölur urðu 23:18 fyrir Stjörnuna sem hefur þar með jafnað metin í einvígi liðanna.

„Við mættum ekki alveg nógu vel undirbúnar til leiks og svo fer hún svolítið með okkur hún Florentina í markinu. Hún ver of mörg dauðafæri og það dregur úr sjálfstrausti leikmanna sóknarlega. Þá hörfum við frá og við förum að skjóta lengra utan af velli og það er eitthvað sem við þurfum að laga og gera betur í næsta leik.“

Vissum fyrirfram að þetta yrði erfitt

„Við vissum það alveg fyrirfram að það væri hæpið að við myndum vinna þetta einvígi 3:0. Stjarnan er með gott lið og þær hafa verið að bæta sig í hverjum leik undanfarið. Þessi lið eru mjög jöfn að getu, þetta eru liðin í öðru og þriðja sæti, þannig að munurinn ætti ekki að vera mikill milli liðanna. Nú er staðan bara 1:1 og við verðum að ná forystunni á nýjan leik á mánudaginn kemur.“

„Við skoruðum allt of lítið af mörkum í leiknum í dag og við verðum að bæta uppstillta sóknarleikinn á mánudaginn. Við þurfum líka að fá fleiri hraðaupphlaup í næsta leik. Við erum að spila ágætis vörn, en við verðum að nýta sterkan varnarlek með auðveldum mörkum úr hraðaupphlaupum. Ef að við náum að laga þetta þá vinnum við á mánudaginn og það er klárlega stefnan.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert