Skorti hugrekki í sóknarleikinn

Lovísa Thompson, Gróttu.
Lovísa Thompson, Gróttu. mbl.is / Kristinn Ingvarsson

Kári Garðarsson, þjálfari Gróttu, var svekktur að loknum þriðja leik Gróttu og ÍBV í undanúrslitum Olís deildar kvenna í handknattleik í Hertz höllinni á Seltjarnarnesi í kvöld. Lokatölur í leiknum urðu 25:22 fyrir ÍBV og það er því að duga eða drepast fyrir Gróttu í fjórða leiknum á fimmtudaginn. 

„Við vorum ekki nægilega beittar í leiknum í kvöld og spiluðum ekki nógu vel. Við vorum of lengi í gang í fyrri hálfleik og gerðum okkar sekar um einföld mistök og of marga tæknifeila. Við komum sterkar inn í seinni hálfleikinn og vorum á góðu róli þá. Við hefðum getað aukið muninn enn frekar á þeim kafla í leiknum, en þess í stað hleypum við Eyjamönnum inn í leikinn aftur. Við förum illa með færin okkar á þeim kafla og erum ekki nógu skarpar varnarlega. ÍBV spilaði bara vel í dag og áttu sigurinn líklegast bara skilið í kvöld þegar á heildina er litið.“

Kári var ekki sáttur við sóknarleik Gróttu í leiknum í kvöld og telur að liðið þurfi að finna aftur það sjálfstraust sem einkennt hefur liðið í vetur.  

„Við verðum að vera ákveðnari og áræðnari sóknarlega á fimmtudaginn. Við þurfum að þora að sækja á markið. Við vorum of ragar í sóknarleiknum í kvöld og þurfum að vera hugaðri á fimmtudaginn. Við þurfum að finna aftur þann kraft, vilja, leikgleði og sjálfstraust sem liðið hefur sýnt í allan vetur. Það er fátt skemmtilegra en að vinna í Vestmannaeyjum og það er stefnan að gera það og tryggja okkur hreinan úrslitaleik hér á heimavelli á laugardaginn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert