Algjör óvissa um Jóhann

Jóhann Gunnar Einarsson í undanúrslitaeinvíginu gegn ÍR.
Jóhann Gunnar Einarsson í undanúrslitaeinvíginu gegn ÍR. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

„Það er algjörlega óvíst hversu mikið Jóhann Gunnar verður með okkur í úrslitaleikjunum við Hauka,“ segir Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, um hvort Jóhann Gunnar Einarsson geti leikið með Aftureldingarliðinu gegn Haukum í úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla sem hefst í kvöld.

Jóhann Gunnar meiddist á öxl í fyrsta undanúrslitaleik Aftureldingar og ÍR í lok síðasta mánaðar og tók lítið sem ekkert þátt í fjórum síðustu viðureignum liðanna.

„Jóhann Gunnar hefur ekkert æft með okkur síðustu vikur. Hann er og hefur verið í meðferð hjá lækni og sjúkraþjálfara. Hann langar eðlilega að taka þátt í leikjunum og við vonum auðvitað það besta og hann geti tekið eitthvað þátt. Annars verður það í höndum Jóhanns sjálfs hvort og þá hversu mikið hann leikur með ef hann treystir sér til,“ segir Einar Andri.

„Ég spila úr þeim leikmönnum sem ég hef. Við erum með breiðan leikmannahóp og fórum í gegnum flesta leikina gegn ÍR án Jóhanns Gunnars. Mínir menn eru tilbúnir í allt,“ segir Einar Andri, þjálfari Aftureldingar.

Flautað verður til fyrsta úrslitaleik Aftureldingar og Hauka í N1-höllinni á Varmá í Mosfellsbæ kl. 19.30 í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert