Það munaði nánast engu

„Það munaði engu og var hrikalega svekkjandi að halda ekki að minnsta kosti jöfnu og ná framlengingu," sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, eftir naumt tap, 23:22, fyrir Haukum í fyrsta úrslitaleik liðanna um Íslandsmeistaratitlinn í handknattleik karla að Varmá í kvöld.

Afturelding missti boltann þegar hálf mínúta var eftir og Haukar skoruðu sigurmarkið þegar sex sekúndur voru til leikslok. Aftureldingarliðið reyndi að skora á síðustu sekúndum leiksins en tókst ekki.

„Við höfðum færi í síðari hálfleik til þess að vinna leikinn en tókst ekki að færa okkur þær í nýt," sagði Einar Andri sem var vonsvikinn yfir að lið hans fékk aðeins 35 sekúndna langa sókn undir lokin. „Sóknirnar voru langar allan leikinn þar til þarna og við vorum ekki einu sinni í langri sókn heldur í venjulegri," sagði Einar Andri. 

„Við vorum agalausir og skutum snemma í fyrri hálfleik. Heilt yfir voru við óánægðir með okkar leik og fórum vel yfir málin í hálfleik," sagði Einar Andri sem fékk allt annað lið fram á leikvöllinn í síðari hálfleik. „Í seinni hálfleik mætti Aftureldingarliðið sem við þekkjum vel og hefur leikið alla leiki á tímabilinu," sagði Einar Andri sem hlakkar til leiksins á föstudaginn á heimavelli Hauka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert