Stórleikur Arons dugði Kiel ekki

Alfreð Gíslason og Aron Pálmarsson verða ekki meðal þátttakenda í …
Alfreð Gíslason og Aron Pálmarsson verða ekki meðal þátttakenda í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu á morgun. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Stórleikur Arons Pálmarssonar dugði Kiel ekki til þess að komast í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í handknattleik í dag. Leikmenn Kiel máttu sætta sig við fjögurra marka tap fyrir Veszprém, 31:27, í undanúrslitaleiknum sem var að ljúka í Lanxess-Arena í Köln. Veszprém mætir þar með Guðjóni Val Sigurðssyni og félögum í Barcelona í úrslitaleik á morgun sem hefst klukkan 16.

Aron átti sem fyrr segir stórleik fyrir Kiel og hélt leik liðsins upp á löngum köflum. Hann skoraði níu mörk úr tíu skotum, átti ekki færri en fimm stoðsendingar og vann einn vítakast. Hann var markahæsti leikmaður Kiel sem mætir Vive Kielce frá Póllandi í leiknum um bronsverðlaunin á morgun.

Kiel byrjaði leikinn afar vel og komst yfir, 5:2, og 7:4, en smátt og smátt náðu leikmenn ungverska liðsins að brjóta á bak aftur öflugan varnarleik Kiel-liðsins og komst yfir. Fyrir atbeina Arons þá náði Kiel að jafna fyrir hálfleik, 13:13.

Leikmenn Kiel byrjuðu síðari hálfleikinn afleitlega og eftir sex mínútur hafði Veszprém náð fjögurra marka forskot, 18:14. Það var ekki síst eftir að nokkra sóknir Kiel-liðsins runnu fyrirvaralaust út í sandinn skömmu eftir að þær hófust.

Þennan mun sem myndaðist náði lið Kiel ekki að vinna upp. Það kom þó sterkt til baka á síðustu tíu mínútunum og átti a.m.k. í tvígang möguleika á að minnka muninn í tvö mörk þegar fimm til sex mínútur voru til leiksloka. Þær tilraunir heppnðust ekki og Veszprém leikur í fyrsta sinn til úrslita í Meistaradeild Evrópu frá árinu 2002 þegar liðið tapaði fyrir SC Magdeburg sem var þá undir stjórn Alfreðs Gíslasonar.

Eins og fyrr segir þá var Aron markahæstur hjá Kiel með níu mörk, ekkert úr vítakasti. Joan Canellas skoraði fimm mörk.

Momir Ilic skoraði átta mörk fyrir Veszprém og þeir Lazló Nágý og Gergö Ivancsik skoruðu sjö mörk hvor.

Kiel vann Veszprém í átta liða úrslitum keppninnar fyrir tveimur árum og í undanúrslitum í fyrra. Þetta er um leið í fyrsta sinn sem Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel, tapar í undanúrslitum Meistaradeildar fyrir liði sem þjálfað er af Spánverja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert