Annar úrslitaleikur Guðjóns Vals

Guðjón Valur Sigurðsson getur orðið Evrópumeistari í handknattleik félagsliða með …
Guðjón Valur Sigurðsson getur orðið Evrópumeistari í handknattleik félagsliða með Barcelona í dag. Hér sækir hann að Þjóðverjanum, Tobias Reichmann, leikmanni Vive Kielce í undanúrslitaleiknum í gær. AFP

Guðjón Valur Sigurðsson leikur í dag í annað sinn til úrslita í Meistaradeild Evrópu í handknattleik þegar lið hans, Barcelona, mætir ungverska liðinu Veszprém í úrslitaleik í Lanxess-Arena í Köln. 

Þrátt fyrir langar og frábæran feril sem einn allra fremsti handknattleiksmaður heims þá var það fyrst fyrir ári síðan sem Guðjón Valur lék til úrslita í fyrsta sinn í Meistaradeild Evrópu. Þá var hann leikmaður Kiel sem tapaði fyrir Flensburg í úrslitaleik með tveggja marka mun, 30:28.

Árið áður hafnaði Guðjón Valur í fjórða sæti í keppninni með Kiel sem tapaði fyrir Vive Kielce, 31:30, í leiknum um þriðja sætið. Þess má geta að Þórir Ólafsson lék með Kielce í þeim leik.

Árið 2012 fékk Guðjón Valur bronsverðlaun með danska liðinu AG Köbenhavn eftir sigur á lærisveinum Dags Sigurðssonar í Füchse Berlin, 26:21. Guðjón Valur tók fyrsta sinn þátt í úrslitahelgi Meistaradeildarinnar 2011 með Rhein-Neckar Löwen, undir stjórn Guðmundar Þórðar Guðmundssonar. Löwen tapaði þá fyrir HSV Hamburg í leiknum um þriðja sætið, 33:31.

Guðjón Valur hefur einu sinni verið í sigurliði í Evrópukeppni. Tíu ár eru liðin síðan hann var í sigurliði Tusem Essen í Evrópukeppni félagsliða, EHF-keppninni.

Flautað verður til úrslitaleiks Barcelona og Veszprém kl. 16 í Lanxess-Arena í Köln. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert