Orðið gríðarleg hugarfarsbreyting

Aron Kristjánsson.
Aron Kristjánsson. mbl.is/Golli

Íslendingar mæta Svartfjallalandi í síðasta leik liðsins í undankeppni fyrir EM sem haldið verður í Póllandi í janúar næstkomandi.

Liðin eru jöfn að stigum en vinni Ísland leikinn vinnur það einnig riðilinn sem þýðir líklegast það að liðið verður í 2. styrkleikaflokki þegar dregið verður í riðla.

„Það er mikilvægt upp á framhaldið. Í fyrsta lagi snýst þetta um að tryggja okkur inn á mótið en einnig að halda áfram því lífi og þeim góða anda sem er í liðinu eftir síðasta verkefni á móti Serbíu þar sem við spiluðum virkilega sterkan leik á heimavelli þar sem þessi íslenska geðveiki kom aftur. Það var mikil stemning í þessu og þannig frammistöðu og kraft þurfum við að fá aftur,“ sagði Aron.

Aron segir hugarfarsbreytingu hafa orðið hjá íslensku landsliðsmönnunum eftir HM í Katar fyrr á árinu.

„Við höfum á síðustu árum verið að ná góðum úrslitum á móti góðum liðum en eftir smá ládeyðu í kringum HM í Katar og aðdraganda þess móts í undankeppninni, þá finnst mér hafa orðið gríðarleg hugarfarsbreyting,“ sagði Aron.

Sannkölluð handboltaveisla verður í Laugardalshöll í dag en kvennalandsliðið mætir Svartfjallalandi kl. 14.10 í síðari umspilsleik liðsins um sæti á HM í Danmörku.

Karlalandsliðið hefur leik kl. 17.00.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert