„Ótrúlegt en satt“

Vignir Svavarsson.
Vignir Svavarsson. Eva Björk Ægisdóttir

„Ótrúlegt en satt þá kom Ólafur Stefánsson með jákvætt innlegg í varnarleikinn okkar,“ sagði Vignir Svavarsson, landsliðsmaður í handknattleik, glettinn á svip eftir sigurinn á Svartfellingum í undankeppni Evrópumeistaramótsins í Laugardalshöll í dag, 34:22.

„Ólafur var einn besti handboltamaður heims á sinni tíð en varnarleikur var aldrei hans sterkasta hlið þótt hann hafi vitað hvernig ætti að leika í vörninni. Hans athugasemdir hafa hinsvegar skilað sér til okkar núna og þær virka nokkuð vel að mínu mati,“ sagði Vignir sem var kjölfestan í varnarleik íslenska landsliðsins í dag, eins og stundum áður, ásamt Bjarka Má Gunnarssyni.

„Þegar tekst að vinna eftir þessu þá náum við upp frábærum varnarleik eins og í dag og ekki spillti fyrir að Björgvin Páll Gústavsson var frábær í markinu,“ sagði Vignir. „Varnarleikurinn hefur batnað í síðustu leikjum okkar og það sem er ef til vill mikilvægast er að það hefur náðst ákveðinn stöðugleiki sem er mikilvægur,“ sagði Vignir Svavarsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert