Krafist fangelsisdóms yfir Karabatic-bræðrum

Luka og Nikola Karabatic á leið í réttarsal í Montpellier.
Luka og Nikola Karabatic á leið í réttarsal í Montpellier. AFP

Handboltabræðurnir frönsku Nikola og Luka Karabatic hafa undanfarna daga verið á sakamannabekk í réttarhaldi í Frakklandi vegna gruns um að úrslitum í leik hafi verið hagrætt í þeim tilgangi að græða vel á veðmálastarfsemi.

Um er að ræða leik Cesson-Rennes gegn Montpellier, en bræðurnir léku með síðarnefnda liðinu, í lokaumferð frönsku 1. deildarinnar vorið 2012. Montpellier var þegar orðið meistari en tapaði fyrir Cesson-Rennes sem þar með hélt sæti sínu í deildinni.

Saksóknari hefur lýst kröfugerð sinni og sakar hópinn sem stefnt var hafa stundað skipulega glæpastarfsemi. Krefst hann þess að Nikola verði dæmdur í þriggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið, og til greiðslu 30.000 evra sektar. Og að Luka fái sömu fangelsisrefsingu og 20.000 evra sekt.

Í heild hljóða kröfur saksóknara á hendur einstökum aðilum upp á allt að 8 mánaða fangelsi, alltaf skilorðsbundið, og sektir á bilinu 7.500 til 80.000 evrur.

Þyngsta krafa á hendur leikmanni snertir Mladen Bojinovic sem saksóknari vill í hálfs árs fangelsi og 60.000 evra sekt. Krafist er einvörðungu 7.500 evru sektar á hendur sambýliskonum Karabatic-bræðranna.

Réttarhaldið hefur farið fram í Montpellier undanfarna daga en alls er 16 leikmönnum og vandamönnum þeirra stefnt fyrir sviksemi í máli þessu. Hinir stefndu neita allir sök í málinu.

Nikola Karabatic hefur um árabil verið einn allrabesti handboltamaður heims og er nú samherji Guðjóns Vals Sigurðssonar hjá Evrópumeisturum Barcelona. Luka er einnig leikmaður franska landsliðsins og er nýgenginn til liðs við París SG, lið Róberts Gunnarssonar, eftir að hafa spilað með Aix frá 2012.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert