Aron mætir Kiel í Meistaradeildinni

Aron Pálmarsson mætir sínum gömlu félögum í Kiel í Meistaradeildinni.
Aron Pálmarsson mætir sínum gömlu félögum í Kiel í Meistaradeildinni. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Aron Pálmarsson fær að berja á sínum gömlu félögum í Kiel þegar keppni í Meistaradeild Evrópu í handknattleik hefst í haust. Aron hefur yfirgefið Kiel og gengur í næsta mánuði til liðs við ungverska meistaraliðið Veszprém og drógust liðin saman í A-riðil þegar dregið var í riðlana í höfuðstöðvum Evrópska handknattleikssambandsins í Vín í gærkvöld. Með þeim í riðli eru einnig frönsku meistararnir í Paris SG sem Róbert Gunnarsson leikur með.

Guðjón Valur Sigurðsson og félagar hans í Barcelona, sem eiga Evrópumeistaratitilinn að verja, leika í B-riðlinum, sem fyrir fram verður að telja vera mun veikari en A-riðilinn.

Keppni í Meistaradeildinni verður með nýju sniði á næstu leiktíð. Í A- og B-riðlinum eru sterkustu liðin og í hvorum riðli eru átta lið. Efsta liðið í hvorum riðli kemst beint í átta liða úrslitin en liðin sem hafna í sætum 2-6 fara í 16 liða úrslitin. Í riðlum C og D eru sex lið í hvorum riðli og þar komast einungis tvö lið í 16 liða úrslitin. Efsta liðið í C-riðli mætir liðinu úr öðru sæti í D-liði í umspilsleik um sæti í 16 liða úrslitunum og svo öfugt. Sigurvegararnir halda svo áfram í 16 liða úrslitin.

Drátturinn varð þessi:

A-riðill: Kiel, Veszprém, Paris SG, Celje Lasko, Wizla Plock, Zagreb, Besiktas, Flensburg.

B-riðill: Barcelona, Kielce, Vardar, KIF Kolding, Pick Szeged, Rhein-Neckar Löwen, Kristianstad, Montpellier.

C-riðill: Naturhouse, Brest, Chekovski Medvedi, Porto, Vojvodina, Tatran Presov.

D-riðill: Metalurg, Skjern, Zaporozhye, Kadetten, Baia Mare og eitt úr undankeppni.

gummih@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert