Viðræður ganga hægt við Skövde

Björgvin Þór Hólmgeirsson í leik gegn Aftureldingu í vetur.
Björgvin Þór Hólmgeirsson í leik gegn Aftureldingu í vetur. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

ÍR-ingurinn Björgvin Hólmgeirsson hefur verið í viðræðum undanfarnar vikur við sænska úr­vals­deild­ar­fé­lagið Skövde um að leika með því á næsta keppn­is­tíma­bili. Í samtali við mbl.is í dag segir Björgvin viðræður ganga hægt.

„Þetta var nú eiginlega orðið klappað og klárt en það er eitthvað smá sem á eftir að gera en þetta er engan veginn í höfn. Við höldum áfram að skoða okkar mál og önnur lið. Við erum enn í viðræðum og þær ganga mjög hægt núna,“ sagði Björgvin en hann er aðallega í viðræðum við önnur lið í Skandinavíu en þó eru einnig þreifingar við lið í B-deildinni í Þýskalandi.

„Ég nenni bara ekki að fara út frítt. Það er málið. Ég er með fjölskyldu og svona og maður hoppar ekki hvert sem er,“ sagði Björgvin sem stefnir á landsliðið aftur.

„Ég ætla að reyna að fara út og stefni á landsliðið aftur, það er alveg á hreinu og til þess þarf maður að vera í útlöndum,“ sagði Björgvin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert