Anna Úrsúla enn samningslaus

Anna Úrsúla Guðmundsdóttir í leik með Gróttu í vetur.
Anna Úrsúla Guðmundsdóttir í leik með Gróttu í vetur. mbl.is/Eggert

Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, landsliðskona í handbolta, er enn samningslaus og hefur ekki tekið ákvörðun um hvar hún spilar á næsta tímabili. Anna varð í vor Íslandsmeistari með uppeldisfélagi sínu, Gróttu, en samningur hennar við félagið rann út að tímabilinu loknu.

Anna segir í viðtali við netmiðilinn Fimmeinn.is að hún hafi velt því fyrir sér ásamt unnusta sínum, Finni Inga Stefánssyni, leikmanni Vals, að leika erlendis næsta vetur. Ekkert bitastætt hafi boðist sem henti þeim báðum og 90% líkur séu á því að hún spili áfram hér heima.

Hún segir það ekki meitlað í stein að hún leiki áfram með Gróttu og virðist tilbúin til að skoða aðra möguleika. Hún segir þó að „kannski sé eðlilegast“ að setjast fyrst niður með Seltirningum og ræða um nýjan samning.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert