Þetta er mikil breyting

Örn Ingi Bjarkason.
Örn Ingi Bjarkason. mbl.is//Eva Björk

Handknattleiksmaðurinn Örn Ingi Bjarkason hefur skrifað undir eins árs samning við sænska úrvalsdeildarliðið Hammarby í Stokkhólmi um að leika með liðinu á næsta tímabili en samningurinn er með möguleika á eins árs framlengingu.

Örn Ingi sem er uppalinn Mosfellingur hefur leikið með Aftureldingu frá árinu 2013 en spilaði þar áður frá 2010 með FH þar sem hann varð Íslandsmeistari árið 2011. Á síðustu leiktíð var Örn fyrirliði Aftureldingar og markahæstur í úrslitakeppninni þar sem Afturelding tapaði gegn Haukum í úrslitaeinvíginu.

„Ég er búinn að skrifa undir samning og fór í læknisskoðun í gær og það gekk vel,“ sagði Örn Ingi við Morgunblaðið í gær. Erni Inga líst vel á liðsfélaga sína og liðið sem hefur komist í úrslitakeppnina í Svíþjóð þrjú ár í röð en liðið féll úr leik í átta liða úrslitum í fyrra gegn deildarmeisturunum úr Kristianstad.

„Þessu lið hefur alltaf verið spáð svona þokkalegu gengi í deildinni, ekki í umspil eða neitt. Þeir hafa þrátt fyrir það komist í úrslitakeppnina síðastliðin þrjú ár,“ sagði Örn en áður hafa þeir Þröstur Þráinsson úr Haukum og Valsarinn Elvar Friðrikssson spilaði með liðinu.

„Þetta er mjög ungt lið og það fyrsta sem ég tók eftir var að mórallinn er mjög góður. Þetta eru allt sprækir strákar, engar tveggja metra skyttur. Þetta eru strákar sem kunna handbolta og eru vel spilandi,“ sagði Örn sem var vanur stærri mönnum í Mosfellsbænum „Þeir voru ansi stórir í Aftureldingu. Meðalhæðin þar var hærri en hér,“ sagði Örn en hann verður einn af elstu leikmönnum liðsins, 25 ára gamall.

Sjá allt viðtalið við Örn Inga í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert