Guðjón Valur mútaði dómurunum

Nokkur hundruð manns mættu í Nauthólsvík í dag og fylgdust með árlegu móti í strandhandbolta, en veðrið lék við strandgesti að sögn Davíðs Lúthers Sigurðarsonar, eins skipuleggjenda mótsins.

Leikirnir eru tvisvar sinnum fimm og hálf mínúta að lengd, en ýmis aukastig eru í boði að sögn Davíðs. Þannig fást tvö mörk fyrir svokallað „sirkusmark“, en það má framkvæma með ýmsum hætti, t.d. skoti í gegnum klof, aftur fyrir sig o.s.frv.

Hugmyndin kviknaði í Þýskalandi

Mótið er haldið tólfta árið í röð, en Davíð Lúther kom því á fót ásamt félaga sínum sem kynntist íþróttinni í Þýskalandi. „Ég var nítján ára gamall þegar við Haraldur Þorvarðarson vinur minn byrjuðum með þetta. Hann kynntist þessu þegar hann var í atvinnumennsku í Þýskalandi og okkur þótti Nauthólsvíkin henta vel til strandhandboltaiðkunar hérlendis,“ segir Davíð. Ýmsar handboltakempur voru á svæðinu, en þar bar eflaust hæst landsliðsmanninn góðkunna Guðjón Val Sigurðsson. Hann keppti á mótinu í fyrsta sinn í ár og hafði nýlega tapað leik um þriðja sætið þegar mbl.is ræddi við Davíð.

„Þetta var fyrsta keppnin þeirra og þeir kunnu reglurnar greinilega ekki alveg nógu vel, en þeir komu með pítsu og bjór og reyndu að múta dómurunum. Fyrst þeir komust ekki lengra en þetta hafa dómararnir þó líklega ekki látið glepjast af mútunum,“ segir Davíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert