Áfall hjá Aftureldingu - Elvar úr leik

Elvar Ásgeirsson leikur ekkert með Aftureldingu á komandi leiktíð vegna …
Elvar Ásgeirsson leikur ekkert með Aftureldingu á komandi leiktíð vegna alvarlegra meiðsla í hægra hné. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Elvar Ásgeirsson leikur ekkert með Aftureldingu á næsta keppnistímabili í Olís-deildinni en keppni í deildinni hefst á næsta fimmtudag. Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, staðfesti þetta í samtali við mbl.is.

Elvar fer í aðgerð á krossbandi á hægra hné á næstu dögum. „Krossbandið er ekki slitið en mikið teygt. Þar af leiðandi verður ekki hjá því komist að Elvar fari fljótlega í aðgerð þar sem krossbandið verður lagað,“ sagði Einar Andri og bætir við.  „Elvar er þar með úr leik á næsta keppnistímabili. Það er mikið áfall fyrir Aftureldingar-liðið og hann sjálfan. Elvar hefur æft gríðarlega vel og bætt sig mikið á síðustu vikum og mánuðum.“ 

Elvar lék stórt hlutverk í liði Aftureldingar á síðustu leiktíð og var einn af ungum leikmönnum liðsins sem vakti mikla eftirtekt. Afturelding hafnaði í öðru sæti í Olís-deildinni og lék til úrslita við Hauka um Íslandsmeistaratitilinn.

Að sögn Einars Andra er ljóst að Jóhann Gunnar Einarsson leikur ekki með Aftureldingu fyrr en í byrjun næsta árs. 

„Árni Bragi Eyjólfsson er að jafna sig af fingurbroti og Birkir Benediktsson er nefbrotinn. Við verðum þar af leiðandi ekki með fullskipað lið í fyrstu leikjum deildarkeppninnar," sagði Einar Andri sem varð einnig á sjá á bak Erni Inga Bjarkasyni til Svíþjóðar í sumar.

Guðni Már Kristinsson verður leikstjórnandi Aftureldingarliðsins á komandi leiktíð ásamt Bjarka Lárussyni sem kom til baka til Aftureldingar í sumar eftir hafa leikið sem lánsmaður með FJölni á síðasta vetri. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert