„Aðstæður hér í kvöld voru óboðlegar“

Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV, var allt annað en sáttur við …
Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV, var allt annað en sáttur við þær aðstæður sem boðið var upp á í Víkinni í dag. Styrmir Kári

Arnar Pétursson, þjálfari karlaliðs ÍBV í handknattleik, var allt annað en sáttur við þær aðstæður sem boðið var upp í Víkinni í dag þegar Eyjamenn mættu Víkingum í áttundu umferð Olís deildarinnar. Eyjamenn fóru með sigur af hólmi í leiknum 26:22, en sá sigur var nokkuð dýru verði keyptur. 

„Ég er gríðarlega ánægður með að vinna þennan leik og sækja tvo punkta. Ég get alveg viðurkennt það að ég var smeykur fyrir þennan leik í dag. Víkingur fékk slæman skell gegn Akureyri í síðasta leik og það var alveg ljóst að þeir myndu selja sig dýrt í þessum leik,“ sagði Arnar Pétursson, eftir leikinn í dag. 

„Ég ber mikla virðingu fyrir vini mínum í Víkingi og mér þykir leiðinlegt að þurfa að gagnrýna þá. Aðstæðurnar sem boðið var upp á hér í dag voru hins vegar ekki boðlegar. Við gerðum athugasemdir við gólfið fyrir leik og annar teigurinn var sérstaklega háll. Starfsmenn leiksins reyndu sitt besta til þess að laga það, en það var ekki nóg,“ sagði Arnar Pétursson um þær aðstæður sem boðið var upp á í Víkinni í dag. 

„Við missum Stephen Nielsen snemma þar sem hann fær slink á hnéð og Andri Heimir Friðriksson þarf svo að fara útaf vegna meiðsla í ökkla. Við eigum tvo Evrópuleiki framundan og þetta er dýrt. Ég held að Stephen Nielsen verði með, en það er mun hæpnara með Andra Heimi,“ sagði Arnar Pétursson um ástand þeirra leikmanna sem þurftu að yfirgefa völlinn í dag vegna meiðsla. 

„Við misstum hausinn á tímabili og menn voru orðnir hræddir við að framkvæma aðgerðir á fullum hraða. Við náðum hins vegar stjórn á okkar leik aftur og sigldum þessu sem betur fer í land undir lokin,“ sagði Arnar Pétursson í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert