Ætlum að berja frá okkur

„Við mætum til þess að berja frá okkur og sýna að það er enginn gjöf að mæta okkur," sagði Janús Daði Smárason  leikmaður Íslands­meist­ara Hauka í hand­knatt­leik en þeir mæta franska liðinu Saint-Raphaël með Arnór Atlason innanborðs í Schen­ker­höll­inni á Ásvöll­um klukk­an 18 í dag.

Arn­ór er einn fjöl­margra landsliðsmanna liðs Saint-Raphaël en einnig er þar að finna landsliðsmenn, Frakka, Tún­is­búa, Dana og fleiri þjóða. Saint-Raphaël-liðið sit­ur í 3. sæti frönsku 1. deild­ar­inn­ar um þess­ar mund­ir og því ljóst að um afar sterkt lið er að ræða. 

Um er að ræða fyrri viður­eign liðanna í þriðju um­ferð EHF-keppn­inn­ar. Hauk­ar hafa til þessa farið í gegn­um tvær fyrstu um­ferðir keppn­inn­ar, fyrst með því að leggja ít­alskt fé­lagslið og síðan unnu þeir lið frá Makedón­íu.

Janus Daði hefur átt hvern stórleikinn á fætur öðru með Haukum á síðustu viku. „Ég vona að púðrið sé ekki á þrotum eftir undanfarna leiki," sagði Janus Daði glaðbeittur. 

„Leikurinn verður mikil áskorun fyrir okkur. Leikmenn franska liðsins eru stórir og sterkir en ég held að við getum vel strítt þeim," sagði Janus Daði. 

Nánar er rætt við Janus Daða á meðfylgjandi myndskeiði.

Flautað verður til leiks Hauka og Saint-Raphaël klukkan 18 í kvöld í Schenkerhöllinni á Ásvöllum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert