„Mun velja þá sem standa sig best“

Dagur Sigurðsson.
Dagur Sigurðsson. AFP

Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Þýskalands í handknattleik, segir að allt sé á réttu róli í undirbúningi liðsins fyrir Evrópumótið sem fram fer í Póllandi í janúar.

Meiðsli hafa verið að hrjá þýska landsliðsmenn og hafa  tveir helstu línumenn liðsins, Hendrik Pekeler og Patrich Wiencek, ekki getað beitt sér að undanförnu. Dagur segir aðra menn hafa stigið upp í síðustu verkefnum landsliðsins og er hvergi banginn fyrir EM í Póllandi.

Dagur mætir Íslandi með lærisveinum sínum í byrjun janúar sem liður í undirbúningi beggja þjóða fyrir mótið og segir hann þá leiki skipta miklu máli. Hann segir jafnframt enn tíma fyrir menn að vinna sér sæti í hópnum.

„Hópurinn er ekki klár og allir leikmenn geta ennþá fengið kallið. Mér er sama hjá hvaða liði menn eru að spila, ég mun velja þá sem eru að standa sig best,“ sagði Dagur Sigurðsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert